14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Jón Jónsson:

Mig furðar ekki, þótt raddir heyrist á móti frv. þessu, því að það er rjett, sem hv. þm. Stranda. (M.P.) sagði, að það er ekki venja á þingi að samþykkja slík frv. Vjer eigum að vísu lög um brú á Jökulsá á Sólheimasandi, en það er nokkuð sjerstakt, því að hún er á þjóðvegi og stærra vatnsfall en þau, sem hjer er um að ræða. En þó get jeg ekki viðurkent, að alveg sje ástæðulaust að koma fram með frv. um brýr á þessar ár. Þetta eru mjög vond vatnsföll, og varla sanngjarnt að ætlast til þess, að Norður-Múlasýsla kosti þær að öllu leyti. Þetta verða svo dýrar brýr, að afartilfinnanlegt verður fyrir sýsluna og hreppinn að bera allan kostnaðinn. Það væri mjög æskilegt, að báðar árnar væru brúaðar undir eins, því að það er tiltölulega ódýrara, og báðar eru árnar jafnbölvaðar yfirferðar. Það gæti verið álitamál, hvort ekki væri rjett, að hjer á þingi væru samþykt lög um það að brúa allar þær ár, er þörf er að brúa, og láta svo landsverkfræðing ráða, í hverri röð fje væri lagt fram til þeirra. Jeg álít alveg ófært að láta brúargerðir landsins ganga eins sleifarlega og orðið hefir til þessa. Á undanförnum þingum hefir lítið verið gert að því að veita fje til brúargerða, og afsakanlegt, þótt litið verði á þessu þingi. En það er eitt af lífsskilyrðum þessarar þjóðar, að ár sjeu brúaðar, því að heldur má slarkast yfir landið að öðru leyti, ef árnar eru ekki til farartálma.

Eins og tekið hefir verið fram eru ár þessar ófærar tvo mánuði framan af sumri, en slíkt er ekki þægilegt fyrir hjeraðsbúa.

Jafnvel þótt frv. þetta verði samþykt, þá sje jeg ekki, að menn þurfi að óttast, að þessar ár eigi að ganga fyrir öðrum ám, sem jafnmikil nauðsyn er á að brúa. Tilgangurinn með þessu frv. er að eins sá, að fá tryggingu fyrir því, að þingið vilji styðja brúarbygginguna, svo að menn geti óhultir lagt út í að búa sig undir hana, án þess að þurfa að vera hræddir um, að hún strandaði í miðju kafi á neitun Alþingis. Háttv. þm. Stranda (M. P.) vildi fá upplýsingar um það, hvað Norðmýlingar hefðu lagt fram til brúargerða í sýslunni. Jeg tek það ekki illa upp, þótt hann spyrji um þetta, þar sem jeg veit, að hann er alókunnugur á þessum stöðvum. En jeg get frætt þm. (M. P.) á því, að sýslubúar hafa lagt fram það, sem þeir hafa getað, enda er búið að brúa margar ár í sýslunni. Jeg get t. d. nefnt Jökulsá á Dal. Brúna á hana kostaði landssjóður að hálfu. Hún er á sýsluvegi. Í Vopnafirði hafa verið brúaðar tvær ár, án þess að landssjóður legði nokkuð til. Miðfjarðará hefir líka verið brúuð nýlega, en fyrir landsfje að 2/3. Kaldá og Laxá hafa enn fremur verið brúaðar á sýslunnar kostnað að öllu. Jeg man í svipinn ekki eftir öðrum, en þær eru nú samt fleiri. Þegar litið er á það, að sýslan hefir takmarkað gjaldþol, og tillit er tekið til þeirra gjalda, sem sýslan verður að hafa á öðrum sviðum, þá get jeg ekki skilið, að það þurfi að teljast ósanngjarnt, þótt hún fari fram á stuðning úr landssjóði, til að byggja þessar brýr. Þetta eru verstu árnar, og brýrnar á þeim verða dýrastar, og jeg býst alls ekki við, að farið verði fram á, að landssjóður leggi neitt til annara brúa í sýslunni. Mjer finst það ekki ná neinni átt, eins og hv. þm. Stranda (M. P.) var að benda á, að landssjóður leggi neitt til smábrúa á sýslu- eða hreppavegum, sem kosta minna en 6.10 þús., nema alveg sjerstaklega standi á. Það er ástæðulaust að óttast, að frv. þetta verði til að skapa neitt fordæmi, sem gæti orðið hættulegt. Því má altaf setja takmörk, t. d. með því að slá föstu, að landssjóður leggi ekkert til þeirra brúa, sem kosti minna en 10,000 kr. — Jeg veit ekki betur en að nú í fjárlögunum sje veitt fje til að brúa Hjeraðsvötnin, á sýsluvegi, og gert ráð fyrir, að landssjóður leggi til meira en 2/3 kostnaðar, og jeg skyldi ekkert kippa mjer upp við það, þótt öðrum þingmönnum dytti í hug að koma með samskonar frumvörp, ef þeir vita af vondum ám óbrúuðum í sínum hjeruðum. Jeg væri ekkert á móti því, að það kæmu fram kröfur úr fleiri áttum. Ef eitthvert hjerað sýnir rögg af sjer í því að vilja eitthvað leggja til brúargerða, þá verður landssjóður að hlaupa undir baggann, og hann verður að vera stórvirkari en hann hefir verið hingað til. Það verður aldrei búið að brúa stærstu árnar, ef ekki er gerð nema ein eða tvær brýr á hverju fjárhagstímabili. Það er svo brýn nauðsyn á að brúa árnar, að menn geta ekki beðið eftir því, að landssjóður hafi aflögu fje til þess. Hann verður að taka lán til þess, ef nokkru verulegu á að verða ágengt.

Jeg vona, að deildin lofi málinu að komast í gegnum þingið, og vil því leyfa mjer að stinga upp á því, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar, þegar þessari umræðu er lokið.