14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í C-deild Alþingistíðinda. (3494)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Mjer er kunnugt um það, að hjer í þingsalnum hefir oft áður verið metist um það, hvora skyldi brúa fyr, Jökulsá á Sólheimasandi eða Eyjafjarðará. Þetta hefir orðið til þess, að báðar þessar stórár eru óbrúaðar enn. Eitthvað svipað þessu virtist hafa vakað fyrir háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), þegar bann gaf í skyn, að hann mundi óðar koma með frv. um að brúa 3 ár í Skagafirði, ef þetta frv. yrði samþ. — Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) færði það aðallega á móti frv., að hann hefði aldrei heyrt árnar nefndar. Það er eðlilegt, að hann sje á móti því að brúa ár, sem hann veit ekki hvort eru til eða ekki. (E. J.: Árnar eru víst ekki á kortinu). — Smátt er kortið, sem þm. hefir heima hjá sjer, ef hann getur ekki komið auga á Hofsá, enda hina líka. Þær eru báðar svo stórar. Annað atriðið hjá sama þm. (E. J.) var það, að árnar þyrftu brýr á sjálfar sig. Fyrir austan segjum við, að það sjeu mennirnir, sem þurfa brýrnar, til þess að komast yfir árnar, en árnar sjálfar hafa ekkert með brýr að gera. Annars situr illa á háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) að setja sig upp á móti fjárveitingu til nauðsynlegra fyrirtækja. Því að hvar er meiru fje varið til verklegra framkvæmda en einmitt í sýslunum hjerna fyrir austan heiðina, Árness- og Rangárvallasýslum, þó að ekki sje lítið nema til stóru fjárveitinganna, sem líklegt er að þetta þing láti þeim í tje. Jeg tel það svo sem ekki neitt ósanngjarnt, en jeg vil þá ekki, að þingmenn þeirra kjördæma sjeu svona þröngsýnir, þegar aðrir landshlutar eiga í hlut. Auðvitað bregður Austfirðingum ekki mikið við, því að landssjóður hefir ekki hjálpað þeim nema með 2 fyrirtæki, sem nokkuð munar um, Lagarfljótsbrúna og Fagradalsbrautina.

Jeg sje ekki neina hættu á því að leyfa frv. að ganga til nefndar. Það er ekki heldur nein hætta að samþykkja frv., því að í því er ekkert tekið fram um það, hve nær brýrnar eigi að smíða. Það er því undir fjárveitinganefnd komið, hve nær henni list að taka þær í fjárlögin. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) fjell frá því, að þetta frv. skapaði fordæmi, þar sem fordæmið er til áður. Reyndar vildi hann bendla þau tilfellin, sem á undan eru gengin, við hrossakaup. Jeg veit ekki, hvaða ástæðu hann hefir til þess. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mun hafa átt þátt í að útvega brýrnar í Þistilfirði, og veit jeg ekki, hvort hann vill kannast við að hafa beitt hrossakaupum. En svo mikið er víst, að jeg vildi ekki koma þessum brúm á með neinum hrossakaupum. Jeg kaus því heldur að bera þær fram í sjerstöku frumvarpi heldur en að taka í arm háttv. þm. Stranda. (M. P.) og bjóða honum hrossakaup, til að koma þeim inn í fjárlögin, þó að síðari leiðin kynni ef til vill að hafa reynst heillavænlegri til sigurs.

Jeg gæti verið með því að láta rannsaka, hverjar ár þyrfti að brúa á sýsluvegum, sem hv. þm. (M. P.) mintist á. En jeg ætlast ekki til, að þessar brýr komi á undan þeim, sem þegar eru áætlaðar. Það tók jeg fram í framsöguræðu minni. Þótt nokkrir hafi orðið til að andmæla þessu frv., þá vona jeg, að það fái fram að ganga, og jeg leyfi mjer að styðja till. háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar, þegar þessari umr. er lokið.