14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Bjarni Jónsson:

Jeg man ekki til, að menn hafí áður orðið svona grimmir út af jafnlítilfjörlegu frv. eins og þetta er. Kettinum leyfist þó að líta á kónginn, og Austfirðingar ættu að fá að láta athuga kröfur, sem þeir bera fram, til heilla sínu hjeraði. Það hefír líka komið á daginn, að háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) þarf að fá tíma til að fara til augnlæknis, til að fá sjer sterkari gleraugu, til þess að geta sjeð á kortið. Jeg skil því ekkert í þessum blóðþorsta, að vilja endilega kasta sjer yfir þetta frumvarpsgrey og murka úr því líftóruna strax.

Jeg skal lýsa þeirri skoðun minni, að fyrir mjer er það ekkert höfuðatriði, hvort ár eru á þjóðvegi eða sýsluvegi, ef þær eru hættulegar og þörf er á að brúa þær. Jeg er ekki kunnugur á þessum slóðum, en jeg vil hafa tíma til að átta mig á málinu og sjá, hvað um er að ræða. Jeg segi ekki þar með, að það sje ágæt regla að gefa út lög til að brúa slíkar ár, en jeg vil skjóta því til hv. þingdeildar, hvort það mundi tefja tímann nokkru meira, að vísa málinu til nefndar til athugunar, heldur en að halda langar ræður um það nú. Gætu hv. þm. tekið mig til fyrirmyndar í þessu, en jeg vil láta vísa málinu til 2. umr. og til nefndar.