14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í C-deild Alþingistíðinda. (3506)

130. mál, útflutningsgjald af síld

Matthías Ólafsson:

Jeg ætla fyrst að snúa máli mínu að hv. 1. þm. Árn. (S. S.); hann sagði, að jeg hefði ekki fært önnur rök fyrir máli mínu en þau, sem hann hefði sjálfur borið fram. Það er nú helst að svo sje, eða hitt þó heldur, þar sem jeg hefi snúið öllu máli hans í villu og sýnt fram á, hvílíkur stórgallagripur frv. hans er. Hv. þm. (S. S.) vill láta lögin koma til framkvæmda strax við næsta nýár. Ef hann hefði lagt til, að þau skyldu ekki ganga í gildi fyr en eftir stríðið, þá var lítill vegur til, að við hefðum getað farið að tala saman. Þó mundi jeg hafa getað sýnt honum fram á, að jeg hefði rjett fyrir mjer, en hann rangt, og skal jeg færa rök fyrir því. Þegar eftir stríðið má búast við, að síld komist í svipað verð og hún var í fyrir stríðið, í 15–18 kr. tunnan; þá liggur það í augum uppi, að 2 króna tollur muni vera altof hár á tunnu hverja; enda þótt gera megi ráð fyrir, að tómar tunnurnar komist í svipað verð og áður, 3–4 kr. tunnan, þá er svo mikill og margskonar annar kostnaður við síldveiðarnar, að ekki er að búast við miklum hagnaði af þeim, og því ekki fært að íþyngja þeim með háum tolli, nema sú sje meiningin að vinna að því með honum, að þær leggist niður, en það mun þó varla vera. Að undanförnu hafa útgerðarmenn botnvörpunga sjálfsagt mestmegnis sent þá á síldveiðar, til þess að láta þá ekki halda kyrru fyrir sumarmánuðina og til að sjá fólki sínu fyrir atvinnu. Þeir hafa þóst góðir, ef þeir hafa sloppið skaðlausir við síldveiðarnar. Gróðinn á síldveiðunum 1916 stafaði af ófriðnum, og við óskum víst allir, að gróði af hans völdum verði ekki til langframa, enda því miður ekki útlit fyrir það nú lengur, þótt ófriðurinn haldi áfram. Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) er nú horfinn úr þingsalnum, þegar jeg ætlaði að snúa máli mínu að honum, en af því að jeg geri ráð fyrir, að hann muni nú sem oftar standa á hleri einhversstaðar hjer í nánd, þá fresta jeg ekki að svara ræðu hans.

Hann hjelt víst, að við hefðum ekki lesið bækling Böðvars Jónssonar. Jú, víst hef jeg lesið hann, þótt eigi hafi jeg hann fyrir húslestrarbók, eins og helst lítur út fyrir að háttv. 2. þm. Rang. (E. J) geri, og þeir þarna austur í sýslunum. Og jeg þekki ofmikið til síldar og síldveiða til þess, að jeg vilji hafa hann fyrir mína trúarbók. Í bæklingi þessum úir og grúir af villum, og fátt af viti sagt. Það er annars leitt, að háttv. þm. (E. J.) skuli hafa gefið tilefni til þess, að jeg verði þannig að dæma um verk fjarverandi manns, en hjá því verður ekki komist. Sá tollur, sem þar ræðir um, yrði hreinn verndartollur fyrir síldina; það mundi ekki verða lagt út í að veiða hana. Hin fyrsta kórvilla höfundarins er, að síldinni muni fækka, ef veiðin er ekki takmörkuð. Þessi staðhæfing byggist ekki á neinni reynslu, þar sem síldveiði hefir verið stunduð í stórum stíl, og því ekki leggjandi mikið upp úr henni. Önnur villa hans er sú, að vjer munum geta haldið uppi síldarverðinu með því að takmarka veiðina. Það er eins og hann viti ekki, að það er svo lítill hluti af síldveiði alls heimsins, sem kemur í hlut okkar Íslendinga, að það getur engin áhrif haft á síldarverðið, hvort við veiðum nokkru meira eða minna. Sú bók, sem heldur fram þvílíku sem þessu, getur því ekki orðið trúarbók mín, og varla annara, nema ef vera skyldi Rangvellinga.

Háttv. þm. (E. J.) sagði, að jeg bæri blak af sjávarútveginum. Það er satt, að jeg vil bera blak af honum, ef beita á hann ójöfnuði, en mjer dettur ekki í hug að vilja hlífa honum við sanngjörnum sköttum.

En mjer sárnar það, þegar á að hafa hann fyrir mjólkurkú, en hver eyrir talinn eftir, sem farið er fram á að fá, til að gera hann öflugan og arðberandi. Það er áreiðanlega hyggilegur búhnykkur fyrir bændur að styrkja sjávarútveginn með framlögum úr landssjóði, því að öflugur sjávarútvegur mun reynast drýgstur til að auka tekjur landssjóðs. En því meiru sem landssjóður hefir úr að spila, því auðveldara er að styrkja stór og arðvænleg búnaðarfyrirtæki. Svari háttv. þm. (E. J.) fyrir sig og stjettarbræður sína, hvort þeir hafi reynst jafnfúsir að leggja á sig landssjóðsgjöld eins og sjávarútvegsmenn, og hverjir hafa kvartað mest og kveinað yfir álögum á atvinnuvegi sínum? Fyrst að háttv. flm. (S. S.) vill ekki taka aftur frv. sitt, vildi jeg biðja háttv. þdm. að stytta því aldur, því að það mun ekki reynast til þjóðþrifa að treina í því líftóruna.