09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í C-deild Alþingistíðinda. (3524)

134. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg ætla að eins að segja örfá orð viðvíkjandi fyrirspurnum hv. 1. þm. Skagf. (M.G.). Hann spurði þá fyrst um kostnaðinn, sem þetta myndi hafa í för með sjer, og er þar til því að svara, að það er ekki auðvelt að gera nákvæma grein fyrir honum að svo stöddu. Við leituðum okkur upplýsinga þar að lútandi, eftir því sem föng voru á, og komumst að þeirri niðurstöðu, að hann mundi ekki fara fram úr 10–15 þús. kr. Þar er talinn með stofnkostnaður við stöðina, auk launa forstöðumanns hennar og aðstoðarmanna. Áhöld, sem þarf til þessa, hugsa jeg ekki að hleypi kostnaðinum afarmikið fram. Það verður aðallega stöðin sjálf, eða húsrúm til hennar, sem mestu nemur, og svo launin. Um athuganastöðvar er það að segja, að ekki er gott að giska á, hvað þær koma til að kosta, en jeg býst ekki við, að þær verði fleiri en 3–4 fyrstu árin, svo að það verður aldrei mikið.

Sem sagt, þá býst jeg ekki við, að kostnaðurinn fari fram úr 10–15 þús. kr. (M. G.: En svo vaxandi úr því?). Það álít jeg að ekti þyrfti að vera, því að þótt athuganastöðvunum verði fjölgað, er ekki meiningu, að sá kostnaður leggist á landssjóð. Auðvitað þarf dálítið fje til símskeyta innanlands, en það vil jeg varla telja til beins kostnaðar, þar sem það fer úr einuni vasa í annan. Öðru máli er að gegna um skeyti frá útlöndum. Það þarf auðvitað fje fyrir dagleg skeyti, helst sem viðast að, t. d. frá Englandi, Noregi og Danmörku, og helst vestan um haf líka, en því verður að haga eftir ástæðum. Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. (M.G.) um það, hvort bæjar- og sveitarfjelög eigi að taka þátt í höfuðkostnaðinum, þá er það ekki meiningin, að því er til kemur stofnkostnaðar og launa forstöðumanns, heldur að þau greiði að eins það, sem þarf til viðvörunarstöðvanna, en, eins og jeg tók fram áðan, nemur það aldrei miklu. Þar sem svo háttar til, að leggja þarf síma, yrði það auðvitað dálítið kostnaðarsamt, en þar er hægt að sníða sjer stakk eftir vexti.