09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í C-deild Alþingistíðinda. (3525)

134. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Jeg fyrir mitt leyti er einráðinn í því að ljá þessu frv. fylgi mitt, og mundi ekki setja fyrir mig kostnaðinn, þótt hann næmi töluverðu, því að hjer er, að mínum dómi, um mjög merkilegt mál að ræða, sem fer í þá átt að tryggja mannslífin hjer á landi, en jeg met hvert mannslíf dýrt, ekki síst fyrir þá sök, að fólksfæð er hjer mikil. En hitt finst mjer sjálfsagður hlutur, að allan þann kostnað, sem slíkar öryggisráðstafanir fyrir líf manna hafa í för með sjer, beri að greiða úr landssjóði, en ekki frá einstökum sveitar- eða bæjarfjelögum. Hvað snertir skeyti frá útlöndum, þá hygg jeg ekki, að þau mundu verða okkur dýr, því að jeg hugsa, að þeir hafi einmitt beðið þess með óþreyju, að slík stofnun sem þessi kæmist á hjer, svo að þeir gætu fengið fregnir um veðráttu hjer norður í Atlantshafi. Jeg gæti miklu fremur haldið, að þeir væru fúsir til að leggja fram fje til þessarar stofnunar.