12.09.1917
Neðri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í C-deild Alþingistíðinda. (3539)

188. mál, kjötþurkun

Benedikt Sveinsson:

Það er nú ekki af því, að jeg vilji vera að amast við því, að þingið styðji þá menn, sem hafa fundið upp einhverjar nýjungar, að jeg vildi leyfa mjer að gera fáeinar athugasemdir. Það hefir leikið á tveim tungum um það úti í frá, hversu heppilega þinginu hafi farist í að veita mönnum einkaleyfi, og að sum þeirra hafi ekki leitt til neins gagns. Það virðist þó meinlaust og engum til skaða, þótt heimilað væri að taka sand úti í Hjeraðsflóa, en einkaleyfi það, sem hjer ræðir um, virðist mjer vera miklu varhugaverðara.

Hæstv. forsætisráðherra hefir og bent á það, að slík einkarjettindi, sem lúta að meðferð á matvælum, eru útilokuð í öðrum löndum. Hjer er leitað einkaleyfis til að þurka kjöt hjer á landi um 15 ár. Að vísu hefir leyfisbeiðandi fengið meðmæli hjá Búnaðarfjelagi Íslands. En formaður fjelagsins tekur það þó skýrt fram í brjefi sínu, að hann ætlast til, að þetta leyfi sje að eins bundið við þurkað kjöt til útflutnings, en ekki að það nái til þess, sem notað er hjer innanlands. Jeg er hissa á því, að nefndin skyldi ekki taka þessa bendingu til greina, því að hún er talsvert mikilsverð og takmarkar leyfið allmikið. (St. St.: Má lagfæra það til 3. umr. Auðvitað má laga það til 3. umr., og þess vegna bendi jeg nefndinni á það.

Hvað hinu viðvíkur, hvort heppilegt sje að veita einu fjelagi, eða einum manni, einkaleyfi á útflutningi vindþurkaðs kjöts, um svo langt árabil, þá finst mjer, að það geti verið allvarhugavert. Mjer er ekki kunnugt um, hvort umsækjandi hefir þegar fundið upp sjálfur áhöld þau, sem til þessa þarf, eða hvort þau hafa verið til áður. En mjer þykir sennilegt, að áhöld þessi hafi verið fundin upp í útlöndum. — Ef svo færi, að þessi þurkunaraðferð ryddi sjer til rúms úti um heiminn, og að þessi vara yrði útgengileg, þá verður ekki annað séð sjeð en að það væri landinu óhagur einn að hafa afsalað útflutningsrjetti á þessari vöru í hendur einum manni eða fjelagi, og væri þar með bægt frá að hafa frjálsan aðgang að þeim markaði, sem vera kynni úti í útlöndum.

Í 2. gr. frv. er sagt, að þetta einkaleyfi sje framseljanlegt, en þá virðist sjálfsagt, að jafnframt sje landsstjórninni berum orðum heimilaður forkaupsrjettur. Jeg vil beina þessu til nefndarinnar, svo að hún geti breytt þessu til 3. umr. Það má einu gilda fyrir leyfishafa, hverjum hann selur, en getur hins vegar verið betra fyrir landið að hafa forkaupsrjettinn.

Formaður Búnaðarfjelagsins tekur það fram í brjefi sínu, að ætlast sje til, að leyfishafi byrji á fyrirtækinu þegar er einkaleyfið er gefið út. Um þetta er ekkert sagt í frv., sem þó þyrfti að vera. — Þó er í 3. gr. frv. tekið fram, að leyfishafi skuli innan þriggja ára hafa sýnt, að tilraunir og undirbúningur sjeu svo langt komin, að fyrirtækið geti tekið til starfa á því ári, ella falli leyfið niður. Nú geri jeg ráð fyrir, að frv. verði gengið í gildi á næsta nýári. Þá hefir leyfishafi þrjú ár upp á að hlaupa, og ætti hann þá að geta sýnt það 1921, hvort fyrirtækið hepnast. En hjer þyrfti að taka nánar fram, frá hvaða tíma leyfið er talið, hvort það er reiknað frá þeim tíma, sem lögin ganga í gildi og undirbúningurinn hefst, eða fyrst frá þeim tíma, er fyrirtækið getur tekið til starfa. En þetta getur munað þrem árum, og þarf það að vera fullljóst, hve nær telja skal að leyfistíminn byrji.

Í 4. gr. er ákveðið, að leyfishafi greiði alt að 10 krónum í landssjóð af hverri smálest af þurkuðu kjöti, sem út verður flutt úr landinu. Þetta er auðvitað nokkurt útflutningsgjald. En hins vegar er ekki víst, að það vegi upp á móti þeim skaða, sem landið hefði bakað sjer með því að útiloka sjálft sig frá allri samkepni, ef svo færi, að þessi aðferð næði útbreiðslu úti um heim.

Jeg geri ráð fyrir, að nefndin hafi við eitthvað að styðjast, þar sem hún flytur þetta mál hjer, og að leyfið sje ekki veitt alveg út í bláinn. Er sennilegt, að nefndinni sje kunnugt um, að einhverjar tilraunir hafi þegar verið gerðar um þessa meðferð á kjöti, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.