13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í C-deild Alþingistíðinda. (3543)

188. mál, kjötþurkun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg hefi áður, við 1. umr. þessa máls, skýrt frá. þeim helstu atriðum, sem það snerta. Er við 2. umræðu komu fram athugasemdir við frv. frá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), og samkvæmt þeim athugasemdum hefir nefndin komið fram með breytingartillögur við frv. Þessar tillögur eru á þgskj. 922. Og skal jeg minnast á þessar tillögur með nokkrum orðum.

Það er þá fyrst brtt. við 1. grein, um að aftan við greinina bætist „sem ætlað er til útflutnings“, eða með öðrum orðum, að einkaleyfið nái ekki til annars kjöts en þess, sem ætlað er til útflutnings. Það hefir altaf verið meining nefndarinnar, að leyfið næði ekki lengra, en hún áleit eiginlega þýðingarlaust að setja það inn í frv., en auðvitað hefir hún alls ekkert á móti því, og tekur þennan viðauka því upp.

Þá er næsta brtt., við 2. gr., um að aftan við greinina bætist „enda hafi landssjóður forkaupsrjett. Með þessu er það unnið, að einkaleyfið er ekki framseljanlegt nema samþykki landsstjórnarinnar komi til, og hún þá hafi forkaupsrjettinn fyrir hönd landssjóðs.

Þriðja breytingartill. nefndarinnar, við 4. grein, er að eins orðabreyting.

Þá hefi jeg minst á allar brtt. nefndarinnar, en hv. þm. N.-Þ. (B.Sv.) á hjer eina brtt., við 6. gr., um að landsstjórnin hafi leyfi til að taka einkaleyfið í sínar hendur eftir 5 ár, í stað þess að gert er ráð fyrir 10 árum í frv. — Ef þessi brtt. verður samþykt, þá verður ekki sagt, að áhættan sje orðin mikil fyrir landið. Nefndin hefir átt tal við leyfisbeiðanda um þessa tillögu, og hefir hann tjáð sig mundu ganga að henni, í þeirri von, að landsstjórnin, að þeim tíma liðnum, gerði sjer ekki óþarflega erfitt fyrir, gagnvart hans tilkostnaði og atvinnurekstri.

Nefndin vill því mæla með því, að allar breytingartillögurnar sjeu samþyktar.