13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í C-deild Alþingistíðinda. (3547)

188. mál, kjötþurkun

Bjarni Jónsson:

Jeg kalla, að það leggist lítið fyrir kappann að ráða niðurlögum þessa máls. Auðvelt er það lögfróðum manni að leiða fram grýlur til að fæla menn. Sumar voru þó lítils virði.

Aðalástæða háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) á móti frv. var, að það stöðvaði frjálsa samkepni á þessu sviði. En það yrði naumast nema á pappírnum. Þótt leyfið verði veitt, efast jeg um, að þurkað kjöt verði verslunarvara áður en leyfistíminn er útrunninn. En þá væri engum bagi að því.

Rjett var það athugað, að aðferðinni er ekki fyllilega lýst í skjölum málsins. Er það að vonum, því að enn hefir engin fullnaðartilraun verið gerð. Efni mannsins hafa ekki leyft, að hann legði út í að gera fullnaðartilraunina fyr en hann eigi vís þau fríðindi, er geri honum eftir á skaðlaust að hafa ráðist í þetta. Get jeg helst til, að menn taki því vel, er þetta er komið í kring.

Hvað það snertir, að þessi lög vernd ekki fyrir samkepni frá Argentínu, er það að segja, að það stendur ekki í þingsins valdi að forða frá þeirri samkepni. Til að forðast hana getur leyfishafi „tekið patent á“ aðferð sinni, þegar hann hefir fullgert hana, Það er ekki svo, að enn sje ekki fengin nein niðurstaða. Háttv. 2. þm. Árn. (E.A.) mun hafa rent augum yfir efnagreiningaskýrslu, sem fylgir þessu máli. Þar sjest, að lítið fer til spillis af nauðsynlegum næringarefnum, þótt kjöt sje þurkað.

Það verður ekki heldur sjeð, að þetta einkaleyfi sje einsdæmi. Mætti bera það saman við ýms einkaleyfi, sem þing þetta hefir veitt. Eitthvað er einkaleyfið til saltvinslu úr sjó yfirgripsmeira. Það vita allir, að salt er í sjónum, og alkunnugt er það, að salt hefir verið unnið úr sjó hjer á landi. Víða þar, sem jeg hefi farið, hefi jeg sjeð saltsuðupípur.

Ef það einkaleyfi, sem nú um ræðir, er ilt, þá er saltvinslueinkaleyfið afleitt. Samt lítur út fyrir, að sumir, sem það samþyktu, sjeu andstæðir þessu frv. — Sama mætti segja um einkaleyfið til að vinna járnsand.

Því er jeg algerlega samþykkur, að skilyrði eigi að setja fyrir því, hverjum megi framselja einkaleyfið. Ætti að minsta kosti að setja inn í frv. ákvæði, sem varnaði því, að útlendingar gætu fengið leyfið keypt. Það mun vera misgáningur hjá nefndinni, að hún hefir ekki þegar gert það. Vil jeg skjóta því til háttv frsm. (St.St.), hvort hann vilji ekki taka málið af dagskrá, svo að hægt sje að kippa þessu í lag. Vona jeg, að 2. þm. Árn. (E.A.) taki dagskrá sína aftur, er málið kemur aftur svo úr garði gert.