25.07.1917
Efri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer finst sessunautur minn, háttv. þm. Ak. (M. K.) vera helst til einhliða í máli þessu. Hann leggur alla áhersluna á skattahliðina á málinu. Mjer fyrir mitt leyti finst skatturinn alls ekki hár og álít ekki heldur, að hann sje aðaltilgangur frv.

Alt er undir því komið, hvort hann er útgjaldaauki fyrir kaupendur eða ekki. Og áreiðanlega er svo til ætlast með frv., að hann verði það ekki. Olían á ekki að verða dýrari, þrátt fyrir þetta fjögra kr. gjald, heldur en hún yrði, ef aðrir útveguðu hana. Og jeg hefi þá trú, að svo geti orðið, ekki þó af því, að landsstjórnin komist að betri kjörum en aðrir, heldur af því, að landsstjórnin mundi ekki hugsa um hærra álag en þetta fjögra kr. gjald, en einstakir menn mundu aftur á móti tæplega láta sjer nægja það, sem því svarar, í sinn eigin vasa. Þá virðist mjer betra, að landsstjórnin selji, þótt greiða verði ákveðinn skatt, heldur en hitt, að sætta sig við óákveðið álag seljenda. Þetta álít jeg að beri að athuga, áður en frv. er látið mæta mótmælum frekar.

Í ððru lagi tel jeg það mjög áríðandi, að athugað sje í tíma, hvort landsstjórnin muni geta uppfylt þarfirnar, ef hún fengi einkasöluheimildina, og ef svo reynist ekki, þá yrði sleginn varnagli við því í tíma og öðrum leyfð sala á steinolíu, því að það er sú vara, sem alls ekki er hægt án að vera, og er því betra að sæta illum kaupum en án að vera.