15.09.1917
Neðri deild: 61. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (3552)

188. mál, kjötþurkun

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 956, af þeim sökum, að mjer fanst þessi gr. nú það eina í þessu frv., er hneykslaði menn, því að annars hafa menn álitið það meinlaust, að því er virðist. Til þess geta verið einhver rök, að menn óttist, að maður sá, sem ætlar að fá einkaleyfið, muni ætla sjer að pranga með það og selja útlendingurn. Jeg segi þetta fyrir þá sök, að kunnugt er, að sum einkaleyfi, sem veitt hafa verið, hafa þótt vera misbrúkuð. Og það er illa farið að veita mönnum einkaleyfi til að pranga með.

Það lítur út fyrir, að þessi gr. hafi verið mörgum ásteytingarefni, því að fleiri en einn hafa borið fram brtt. við hana. Mín brtt. tekur af allan efa, því að hún nemur greinina burt. Mjer hefir af orðum flytjenda málsins skilist, að leyfisbeiðanda sje sama, hvort greinin er eða ekki. Það mun upplýst, að hann ætlar að geri þetta sjálfur, sem um er að ræða í frv. Jeg er ekki í vafa um, að hægt er að afgreiða málið, þegar þessi breyting er gerð, og gæti verið spurning um það, þótt hún sje ekki gerð.

Hjer er um það að ræða, að Þorkell Þ. Clementz sækir nú um einkaleyfi til að gera tilraun með vjelþurkun á kjöti. Jeg býst við, að það sje rjett, að mál þetta sje á tilraunastigi. Það er undir ýmsum atvikum komið, hvort þessu verður komið í verk, t. d. hvort markaður fæst fyrir vöruna, og hvort þessum manni tekst að afla þess fjár, sem er skilyrði fyrir því, að unt sje að gera tilraunina til fullnaðar. Undirbúningur er víst gerður að öðru en því, að fje mun vanta enn þá, en það get jeg ekki sjeð að standi í vegi fyrir því, að heimild þessi sje veitt. Jeg vil líta á það, að hjer er öðru máli að gegna en t. d, um leyfi til að vinna salt úr sjó og járnsand austur á landi. Það getur vel verið framtíðarspursmál hjer á landi að vinna salt úr sjó. En sá, sem um það sótti, var vitanlega að sækja um það til að nota sjer aðferðir annara, en ekki að koma sínum eigin uppfyndingum og tilraunum í framkvæmd. Nú er það og vitanlegt, að annarsstaðar er saltvinsla úr sjó rekin í víst nokkuð stórum stíl, og hefði því þingið átt að hafa rænu á að ganga svo frá því máli, að þessi iðnaður yrði rekinn hjer, landinu til gagns. En nú leist þinginu að veita einkaleyfi, sem ekki hefir orðið minsta gagn að.

Um járnsandinn er það að segja, að sú veiting var enn fráleitari. Þar var ekki um annað að ræða en að hlutaðeigandi vildi reyna að spreyta sig á að koma þessu einkaleyfi í verð og braska með það. Það var ekkert annað en fjárgróðafyrirtæki, að ekki sje annað orð notað.

En mjer hefir virst þessu máli horfa allt öðruvísi við. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það snerti eina af helstu framtíðarhugsjónum þessarar þjóðar, framleiðslu einnar helstu landbúnaðarafurðar vorrar, hvort hægt er eða verður að nota aðrar aðferðir við kjötframleiðsluna en áður, til þess að gera vöruna útgengilegri, og auka svo og svo mikið búnað í þessu landi. Því að ef aðferð finst til að verka kjöt og flytja út á góðan og vissan hátt, er það vafalaust stórvinningur fyrir landið og lyftir framleiðslu þess á hærra stig.

Nú er og komin fram brtt. frá háttv. þm. S.-Þ. (P.J.), að einkaleyfistíminn verði 5 ár fyrir 10 ár. Til varúðar mun jeg fylgja þessari till. Mjer þykir rjett, að tíminn sje sem stystur, en þó svo, að maðurinn geti snúið sjer við, og býst jeg við, að honum nægi 5 ár. Það mætti segja, að tíminn sje ofnaumur, en ef tilraunin hepnast og aðferðin reynist vel, eins og maðurinn ætlar, og ef til vill vona má, ætti ekki að vera loku fyrir það skotið að framlengja tímann, er þar að kemur. Jeg hefi ekki heldur heyrt lýst yfir því af frsm. (St.St.), að þessi brtt. sje óaðgengileg fyrir þá skuld.

Mjer virtist, satt að segja, að háttv. 2; þm. Árn. (E.A.) í sinni fróðlegu tölu við síðustu umr. gerði ofmikið úr þeirri „hættu“; er stafað gæti af samþykt þessa frv., er hann komst svo að orði, að vansi gæti orðið af því að veita þetta leyfi út í bláinn, eins og hann kvað standa til. Jeg þykist hafa getið þess áður, að það sje ekki út í bláinn. Það er mikilsvert mál, og um samanburð hins háttv. þm. (E.A.) á þessu leyfi og öðrum „patent“-um er jeg á öðru máli. Þetta mál er ekki í því horfi, að hægt sje að veita „patent“ til þessa iðnrekstrar. Hjer er að eins farið fram á að fá einkaleyfi til að reyna að koma þessari tilraun í framkvæmd. Það, sem hinn háttv. þm. (E.A.) því fann frv. til foráttu frá sjónarmiði þeirra lagaboða, er fjalla um „patent“ á uppfyndingum og nýjum, fullreyndum aðferðum og þvílíku, á ekki við hjer. Frv. fer fram á, að veitt sje „koncession“ til þess, eins og aðrar þjóðir líka veita, en eigi „patent“.

Jeg vona nú, að brtt. mín verði samþykt, því að hún veltir versta steininum úr vegi, og aðrar þær brtt., er miða til bóta, og þá áframhaldandi frv. sjálft með þeim breytingum. Það er að vísa á elleftu stundu, en ef vjer erum þeirrar skoðunar, að eitthvað sje við það unnið, höfum vjer ekki rjett til að hindra það