15.09.1917
Neðri deild: 61. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í C-deild Alþingistíðinda. (3554)

188. mál, kjötþurkun

Gísli Sveinsson:

Jeg skal ekki eyða mörgum orðum að þrætuefninu. Jeg leit á þá rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, og virtist mjer hún, eins og málið horfir nú við fyrir þingmönnum, að öllu leyti óaðgengileg. Jeg sje sem sje ekki, að það sje rjett í dagskránni, að nauðsynlegar upplýsingar um þetta mál vanti. Vjer vitum nú orðið vel, hvað hjer er um að ræða.

Jeg var búinn að taka það fram áður, að hjer er ekki að ræða um „patent“ í rjettum skilningi, heldur „koncession“, og hliðstæðar „koncessionir“ eru veittar annarsstaðar í líkum tilfellum og þessu, en ekki er tími til að rifja það upp nú eða gefa langar skýrslur um það.

Ef jeg mætti, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð upp úr dagskránni, þá stendur hjer í henni: „Með því að nauðsynlegar upplýsingar vantar um mál þetta, og með því að svo virðist, sem einkaleyfi það, sem hjer greinir, fari í bága við almenna löggjöf um veitingu einkaleyfa“, o. s. frv.

Jeg get ekki sjeð, að þetta sje á rökum bygt. Í fyrsta lagi af því, að menn vita vel, við hvað er átt Þetta ber sem sje ekki að skoða sem „patent“, heldur „koncession“, eins og jeg hefi margtekið fram, og kemur slíkt iðulega fyrir. Hjer á þessu þingi t. d. hefir komið fram beiðni um aðra, sem allir muna.

Mjer virðist því dagskráin með öllu óhafandi.