10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í C-deild Alþingistíðinda. (3565)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Flm. (Eggert Pálsson):

Jeg tel líklegt, að allir hv. þm. sjeu sammála um það, að hjer sje um þýðingarmikið mál að ræða. Þetta mál snertir fossana hjer á landi eða notagildi það, sem í þeim felst. Það er, að jeg held, viðurkent orðið um heim allan, að fossarnir hafi meira gildi en menn til forna gerðu sjer í hugarlund. Menn sungu þeim að vísu þá, eins og síðar, margvíslegt lof, og skáldin rómuðu þá hvert í kapp við annað. En það var aðallega fegurðin, er það gerði, en ekki hið mikla gagn, sem í þeim getur búið, og mönnum var þá með öllu ókunnugt um. En til þess að framleiða þetta gagn, sem í fossunum býr, þarf fyrst og fremst fjármagn. Það má, að nokkru leyti, líkja þessu gagni, sem í fossunum býr, við dýra málma eða demanta, sem fólgnir eru í jörðu. Þeir koma ekki að neinu liði, ef jörðin er ekki opnuð og þeir dregnir fram í dagsljósið. Það er eins um hið mikla gagn fossanna, að það kemur engum að haldi, nema því að eins, að hönd og hugvit mannsins komi til, ásamt miklu fjármagni, til þess að gera þá arðberandi. Þá fyrst, er þeir hafa verið þannig beislaðir, verður sagt, að þeir komi að tilætluðum notum.

Vjer erum nú svo heppnir að eiga umráð yfir þessum mikla krafti, er fossarnir hafa í sjer fólginn, enda þótt hann hafi hingað til að litlum notum komið. Jeg held, að ekki sje hægt að segja annað en að notin, sem af þeim hafa orðið fyrir oss, sjeu enn sem komið er sáralítil. Einu notin, sem mjer er kunnugt um að landsbúar hafi haft af þeim, er það, að nokkrir einstaklingar hafa verið að kaupa og selja rjettinn til notkunar þeirra, án þess að nokkuð hafi verið gert til að draga fram hinn mikla mátt, sem í þeim býr, landi eða lýð til framfara.

Nú virðist mjer því, að tími sje kominn til einhverra verulegra og verklegra framkvæmda hvað fossana snertir.

En þegar um það er að ræða að notfæra þennan mikla kraft fossanna, þá liggur það í augum uppi, að það verður ekki gert nema með mjög miklu fjármagni.

En spurningin er þá þessi: Er fjármagn það á reiðum höndum, sem til þess þarf?

Jeg hygg, að öllum hljóti að vera það ljóst, að um innlent fjármagn, sem til þessa þarf, geti ekki verið að ræða, og jeg vil segja, að eftir því muni þurfa að bíða í ófyrirsjáanlega langan tíma. Hjer getur því ekki komið annað til greina en að veita erlendu fjármagni inn í landið.

En sje um það að ræða að veita hingað inn erlendum fjárstraumum, í því skyni, að fossarnir geti komið oss og niðjum vorum að verulegum molum, þá má segja, að tvær leiðir til þess sjeu hugsanlegar. Önnur leiðin er sú, að landið sjálft taki svo stórt lán, er til þess þarf, að fossarnir verði notaðir. Sú leið er hugsanleg, en ekki heldur meira. Hún er og verður um ófyrirsjáanlega langan tíma óframkvæmanleg. Ef það á að gera hjer nokkuð, sem að verulegt gagn sje að í þessu efni, þá þarf til þess ekki miljónir króna, heldur miljónir króna svo að tugum skiftir, því að til slíkra framkvæmda stoða ekkert smáar fjárupphæðir, sem og öllum er ljóst.

Jeg fæ því ekki skilið, að landið sjálft geti ráðist í það að taka tugi miljóna króna lán í þessu skyni, ekki fjölmennari eða ríkari en þjóðin er, sem á bak við stendur Og mjög miklar líkur eru fyrir því, þó að slíkt lán kynni að vera fáanlegt, að með þeirri aðferð væri frelsi og sjálfstæði landsins einmitt í voða teflt, því að eitthvað, og það ekki svo lítið, mundi svo voldugur lánardrottinn vilja hafa fyrir snúð sinn. Ef menn því hugsuðu til að fara slíka leið í þessu máli, þá fæ jeg ekki annað skilið en að allar framkvæmdir hljóti að dragast um mjög marga tugi ára enn. En það væri oss öllum afarmikið tjón. En þá er hin leiðin, sem fram undan liggur og hægt er að fara, — sú leiðin, að veita hlutafjelagi leyfi til þess að gera fossaaflið að meira eða minna leyti nothæft. Og þessi leiðin er það, sem jeg, eftir atvikum og ástæðum, tel þá einu rjettu, enda er það hún, sem blasir við í frumvarpi þessu.

Þessi leið er heldur ekkert nýmæli í sögunni. Hún hefir verið farin og er enn þá að nokkru leyti farin af okkur ríkari og að mörgu leyti merkari þjóðum. Sem dæmi skal jeg nefna frændur vora Norðmenn, er einmitt hafa með þessum hætti fært sjer fossaflið til nytja. Vjer vitum og, að aðrar þjóðir hafa notað svipaða aðferð til þess að lyfta undir framfarir hjá sjer og skapa auð og afl í landi. Þannig hafa t. d. Danir veitt hjá sjer ýmsum fjelögum sjerrjettindi, svo sem t. d. Sameinaða gufuskipafjelaginu, Stóra norræna og Austur-Indlands-fjelaginu. Og hverjum augum sem vjer kunnum að líta á þessi fjelög, þá hygg jeg það vist vera, að öll danska þjóðin sje sammála um, að þessi spor hafi verið heillamikil og giftudrjúg fyrir hana, og að hún hefði ekki staðið jafnvel að vígi og hún nú gerir, eða verið eins auðug eða í áliti og hún nú er, ef þau spor hefðu ekki verið stigin.

Að veita leyfi það, sem hjer er farið fram á, sýnist því ekki vera viðurhlutamikið, hvernig sem á er litið, sje það að eins með rjettum augum gert, því að hjer er um örlítið brot, nálægt 4%, að ræða, af því mikla fossafli, sem Ísland á yfir að ráða, og er því af næsta nógu að taka, þótt þetta gangi frá; í öðru lagi fylgir innlausnarrjettur á öllum eignum og áhöldum fjelagsins eftir vissa áratölu, svo framarlega sem landið þá vill eða getur tekið það í sínar hendur. Í þriðja lagi eru landssjóði hjer engar skorður settar um það, ef svo sýnist, að hann taki svo marga hluti í fjelaginu, sem vera vill. Og ef menn telja það vera hagnað fyrir landssjóð að taka stórfeld lán til þess að reka slíkt fossafyrirtæki að öllu leyti fyrir eigin reikning og á eigin ábyrgð, þá ætti það að vera hlutfallslega sami hagnaðurinn fyrir hann að kaupa hluti í slíku fossafjelagi, og því fremur sem gera má ráð fyrir, að það væri rekið með enn meiri krafti og kunnáltu.

En það, sem aðallega fyrir mjer vakir með að ljá máli þessu fullkomið fylgi, er mest og helst óbeini hagnaðurinn, sem jeg þykist sjá að af því mundi leiða fyrir land og lýð.

Óbeini hagnaður sá, sem mest liggur í augum uppi, er að minni ætlun þrennskonar.

1. Rafmagnsframleiðsla til iðnaðar, ljósa og hitunar.

2. Járnbrautarspursmálið er þar með leyst.

3. Nægur áburður fenginn til ótakmarkaðrar jarðræktar.

Um fyrsta liðinn, rafleiðsluna, má segja, að hún komi aðallega eða mestmegnis að notum fyrir þennan bæ, Reykjavík, enda er það víst, að þeir, sem mest og best hugsa um hagsmuni hans, leggja mikla áherslu á, að þetta mál nái fram að ganga og sofni ekki út af í höndum vorum.

Um annan liðinn, járnbrautina, er það að segja, að það er mál, er varðar gervalt Suðurl., en þó hygg jeg, að það varði mest sjálfa Rvík., meir en hið eiginlega Suðurl. undirlendi. Því að mjer er ekki ljóst, hvernig á að tryggja líf og framþróun Reykvíkinga, ef þeir eiga til langframa að búa að kjörum þeim, sem þeir hafa nú. Mannfjölgun bæjarins verður ekki heft. — Það er lögmál, sem enginn ræður við, að fólkið flykkist í kaupstaðina — og mjólkurskorturinn sverfur æ fastar að. Mjer finst því, að með því einu móti, að samþykkja frv. þetta, sje það forsvaranlegt fyrir þingið að láta járnbrautarmálið að öðru leyti liggja niðri. Ella væri það með öllu óafsakanlegt að veita ekki einu sinni í fjárlögunum fje til fullnægjandi rannsóknar. En sje þessu frv. vel tekið, þarf þess ekki, því með því að er sjálft járnbrautarmálið leyst.

Hvað frv. sjálft snertir, þá er það að mestu leyti samhljóða frv. því, er háttv. þm. hafa áður í handriti fengið. En þótt það hafi engum stórbreytingum tekið frá því, sem var í handritinu, þá eru þær þó nokkrar, aðallega tvær. Fyrri aðalbreytingin, sem á því hefir verið gerð, er sú, að þegar járnbrautin verður lögð, þá verði lega hennar og gerð ákveðin í samráði við stjórnarráðið. Þetta er þýðingarmikið atriði. Önnur aðalbreytingin, sem hefir verð gerð á því, er það ákvæði, að stjórninni sje heimilt að skipa mann til að rannsaka reikninga fjelagsins, og er það einnig all þýðingarmikið, því að stjórnarráðið þarf þá ekki að ganga neitt gruflandi að því, hversu hag fjelagsins er háttað á hverri stundu sem er, eða óttast, að það sje með fölsuðum reikningum á tálar dregið. Annars má segja, að frv. þetta, eins og það liggur nú fyrir, sje að mestu sniðið eftir norskum fyrirmyndum. Dómsmálastjórnin norska hefir skipað nefnd manna til að gefa álit sitt um, hvernig slíkum lögum sem þessum skyldi fyrirkomið. Í nefnd þessari sátu hinir nýtustu menn Norðmanna, þar á meðal einn, prófessor Gjelsvík, sem varð um eitt skeið mjög kunnur hjer á landi, og oft var vitnað til í stjórnmáladeilum vorum. Álit þessarar nefndar hefir verið gefið út og liggur hjer fyrir, og eru ákvæði frv. þessa að mestu leyti eftir því, sem þessi nefnd hefir lagt til að slík lög skyldu hafa.

Þegar um það er að tala að gefa stjórninni heimild til að veita fjelagi því, er hjer er nefnt, leyfi til að nota Sogsfossana, þá er eðlilegt, að spurt sje að því, hvort hjer sje um ábyggilegt fjelag að ræða, sem ekki sje að hafa okkur að leiksoppi, heldur sje fult mark á takandi. Eftir því, er jeg veit best, er hjer um bæði áreiðanlegt og öflugt fjelag að ræða, eða, rjetlara sagt, bæði ábyggilegir og fjársterkir menn, er að því standa. Allir háttv. þingdm. mega líka sjá það, að við flm. erum ekki einir um þessa skoðun: það má lesa í fgskj. því, er prentað er aftan við frv., að bæjarstjórn Reykjavíkur leggur sterka áherslu á, að stjórn og þing taki beiðni h.f. Íslands, um leyfi til að fá að hagnýta vatnsaflið í Soginu, og vitanlega óskar hún þess af því, að hún er sannfærð um, að hjer sje um ábyggilegt fjelag að ræða, er reynast mun nægilega sterkt til að hrinda í framkvæmd þeim fyrirtækjum, er hljóta að efla hagsmuni Reykjavíkur og yfir höfuð gjörvalls landsins. Sýslunefnd Árnessýslu er einnig sömu skoðunar; hún telur heillavænlegt og gott fyrir sýslufjelagið, að fjelaginu verði leyft að nota Sogsfossana eða starfrækja þá, og það sem fyrst, að sjálfsögðu af því, að hún telur það í alla staði örugt og ábyggilegt.

Jeg skal enn fremur benda á það, að hr. skrifstofustjóri Jón Krabbe í Kaupmannahöfn, sem er maður ábyggilegur og fjármálamaður góður, fullyrðir, að fjölda margir af þeim, sem að fjelaginu standa, sjeu ábyggilegir efnamenn, og telur því engan efa á því, að þeir sjeu færir um og fúsir til að uppfylla allar skuldbindingar fjelagsins.

Að svo vöxnu máli finn jeg ekki ástæðu til að ræða málið frekar, en treysti því, að háttv. þingdeild viðurkenni rjettmæti þess, og taki því eins vel og það á skilið.

Eins og sakir standa nú er ekki annað fyrir mig að gera en að óska þess, að háttv. deild taki á móti frv. þessu á þann hátt, að það verði athugað í nefnd, því að vitanlega eru mörg ákvæði í því, er nefnd þarf að athuga og rannsaka betur. Frá slíku frumvarpi sem þessu verður ekki svo gengið á fyrstu stundu, að það þurfi engra endurbóta við. Það segir sig sjálft. En að fara út í einstök ákvæði frv. á ekki við á þessu stigi málsins, þar sem það er hjer til fyrstu, en ekki annarar, umr.

Jeg legg því til, að málinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til allsherjarnefndar, enda er það, að mínu áliti, allsherjarheill landsins, er hjer ræðir um.