10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í C-deild Alþingistíðinda. (3567)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Sigurður Eggerz:

Þegar litið er á frv. þetta, verður manni fyrst fyrir að spyrja: Hvaða fjelag er þetta fossafjelag „Ísland“ ?

Hæstv. forsætisráðherra hefir að vísu tilgreint þau ummæli Krabbe’s, skrifstofustjóra, að það hefði góðum kröftum á að skipa.

En slíkt eru litlar upplýsingar, og menn eru lítið fróðari eftir en áður, um það t. d., hvort það hefir ráð yfir nægu fje til að koma á fót mannvirkjum þessum og rækja starfið. Lög fjelagsins eru líka ókunn. Menn vita að eins, að í stjórn þess eru 5 menn, þeir Monberg og Jarl og Íslendingarnir Pjetur Jónsson á Gautlöndum, Eiríkur Einarsson frá Hæli og Guðm. Hlíðdal, verkfr.

Þá er önnur spurningin, sem kemur til greina, þegar um leyfisbeiðni þessa er að ræða. Hvað ætlar fjelagið að gera? Það stendur í trv., að það ætli að leiða aflið úr Soginu, milli Þingvallavatns og Hvítár, til Reykjavíkur eða annarar hafnar, í rafmagnsleiðslum, leggja járnbraut og vegi og gera höfn og önnur mannvirki, sem nauðsynleg eru til að geta notað vatnsaflið.

En þetta alt saman er auðvitað ekki annað en leiðin til að framkvæma aðaltilganginn. Og hver er hann? Á það er ekki minst í frv. Háttv. flm. (E.P.) gat þess að vísu lauslega, að hann mundi vera það að vinna áburð úr loftinu, og er það sennilegt.

En þó að nú svo væri, að upplýst yrði bæði um hag fjelagsins og tilgang þess með beiðni þessari, þá verður að athuga það tvent, hvaða rjettindi fjelagið vill fá og hvað það vill leggja fram á móti.

Í Noregi er það venja, þegar slíkt leyfi er veitt, að heimta nákvæmar skýrslur um það, sem gera á, og nákvæmar teikningar yfir mannvirki þau, sem stofna skal Er síðan leitað álits nefnda, sem skipaðar eru vel hæfum og verkfróðum mönnum, áður en leyfið er veitt.

Það, sem fjelagið heimtar af rjettindum í landinu, er aðallega þrent.

Í fyrsta lagi vill það fá heimild til að leiða aflið úr Soginu, milli Hvítár og Þingvallavatns, til Reykjavíkur eða annarar hafnar, leggja járnbraut og vegi, gera höfn og önnur mannvirki o. s. frv.

Þetta eru sanngjarnar kröfur og auðvitað skilyrði fyrir starfrækslu fjelagsins.

Í öðru lagi gerir það kröfu til þess að vera laust við skatta og tolla til landssjóðs. Slíkt getur ekki talist annað en hrein og bein heimtufrekja. Að líkindum mundi fjelag þetta verða langstærsti framleiðandi landsins, og væri það ilt verk að veita því slík hlunnindi og forrjettindi, fram yfir öll önnur landsins börn.

Og líklegt þykir mjer, að tvær grímur renni á marga, áður en slíkt fær fram að ganga.

Í þriðja lagi heimtar fjelagið að njóta hlunninda þessara í 99 ár. Það er langur tími; að minsta kosti meira en nógu langur til að iðrast á, ef svo færi, að menn sæju eftir samningunum.

Og nú er þess að gæta, að þótt landið eigi ekki fossa þessa, þá ræður það þó, hvort þeir eru starfræktir, og hefir heimild til að taka þá í sínar þarfir.

Þá kemur að því, sem landið á að fá á móti, og er þá helst rafmagn handa einstökum sveitaheimilum og hreppsfjelögum til ljósa, suðu og hitunar og smáiðnaðar, og sömuleiðis til rekstrar járnbraut um Suðurlandsundirlendi, og skal það látið af hendi við verði, er miðað sje við framleiðslukostnað, að viðbættum 10% ágóða.

Við þetta er það að athuga, að það mun mest undir fjelaginu sjálfu komið, hve hátt er reiknaður framleiðslukostnaður.

Er þá lítil vissa fyrir því, að þetta fáist við góðu verði.

Í annan stað er það ekki víst, að fjelagið fái svo mikið rafmagn, að það geti látið af hendi það, sem þarf til rekstrar járnbraut, því að til þess að vinna áburð úr loftinu þarf mikið afl og sterka strauma.

Og sje nú hægt að sýna fram á það, að fjelagið verði að minka sitt eigið starf við rekstur járnbrautarinnar, þá er lítil orðin tryggingin fyrir því, að rafmagnið fáist með góðu verði.

Þá á landssjóður að fá 10% af ágóða fjelagsins eftir að hæfilegur frádráttur hefir verið gerður fyrir tilgun (amortisation) og fyrningarkostnaði, og eftir að hluthöfum hefir verið greitt 5% af hlutafje þeirra.

Svo mundi nú mega setja upp reikningana, að lítill yrði hluturinn landssjóðs þegar að skiftunum kæmi. Þá á landið að hafa heimild til afnota af mannvirkjunum — að svo miklu leyti, sem það hindrar ekki eigin afnot leyfishafa — gegn hæfilegu gjaldi, er stjórnarráðið samþykkir. Leyfishafi gengur á undan og getur vitanlega sett mönnum stólinn fyrir dyrnar, með óaðgengilegum skilyrðum fyrir að nota heimild þessa.

Þá á landssjóður líka að eiga rjett á að fá járnbraut keypta, en þó með þeim skilyrðum, að fjelagið verði ekki ver sett með flutninga en það hefði orðið, hefði það sjálft rekið brautina áfram.

Eftir þessum skilyrðum er járnbrautin eftir sem áður í höndum fjelagsins, ef það á annað borð hefir lagt hana, því að ekkert ákvæði er í frv., er skyldi fjelagið til þess.

Þá er loks ákvæði það, að landsstjórnin á rjett á að fá sjer afhent öll mannvirki fjelagsins eftir 55 ár, gegn kaupverði, sem miðað er við, hvað leyfishafi borgaði fyrir rjettindin og hvers virði mannvirkin eru.

Hjer er ekki tekið til greina það ákvæði í fossalögunum íslensku, að fossarnir falli til landsins eftir vissan tíma, og ekki heldur samskonar ákvæði í Noregi, sem gildir um lík mannvirki og hjer er um að ræða.

Það virðist því eftir frv. þessu, að fjelagið muni hafa bæði töglin og hagldirnar, einkum þegar slept er tryggustu leiðinni til að halda því í skefjum, sem er rjetturinn til að leggja á tolla og skatta.

Við að fara yfir frv. og athuga það lauslega hefi jeg því komist að þeirri niðurstöðu, sem jeg álít að allir hljóti að komast að; hún er sú, að ekki sje hægt að lúka málinu nú á þessu þingi. Brestur til þess bæði þekkingu og athugun. Hæstv. stjórn hefir ekki heldur tekið ákveðna afstöðu til málsins enn þá og hefir þó haft lengri tíma til athugunar.

Hæstv. forsætisráðherra er hlyntur málinu, en hefir ekki tekið ákveðna afstöðu til þess enn þá, ef jeg skil hann rjett. Hæstv. stjórn getur því ekki ráðið þinginu til að samþykkja frv., því að í slíku stórmáli sem þessu þarf stjórnin að vera einhuga og hafa ákveðna stefnu.

Það er síður en svo, að jeg lái henni stefnuleysi hennar í málinu. Hún hefir að eins fundið til þess sjálf, að hana skortir bæði tíma og tæki til að rannsaka málið að svo komnu, og er slíkt afsakanlegt.

Þykir mjer sjálfsagt, að athuguð verði reynsla annara þjóða í þessum sökum, áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar í málinu. Hygg jeg því, að þetta þing geti ekki annað gert en fela stjórninni málið til athugunar.

Af því, sem jeg hefi kynt mjer umræður í stórþinginu norska, skilst mjer, að Norðmenn líti nú svo á, að þeir hafi verið offljótfærir og farið ofógætilega í samningum um fossa sína. Skilja þeir það altaf betur og betur, hvers virði fossaflið er, og í fjárlögum þeirra er áætluð viss upphæð til að kaupa fossa — til að kaupa „disse Herligheder“, eins og einn stórþingsmaðurinn komst að orði.

En nú kann einhver að segja, að ef frestað er málinu, þá velti miljónir á burt. En það hræðist jeg ekki, og það þarf enginn að hræðast. Því er líkt farið með miljónirnar og vatnið. Vatnið sækir undan eftir hallanum. Miljónirnar sækja þangað, sem mestra vaxta er von. Og ef erlent fje sækir inn í eitthvert land, þá er eitt af tvennu, sem því veldur; annaðhvort er þar gróðajarðvegur góður og líklegur til margfaldrar uppskeru, eða hitt, að viðkomandi menn ætla sjer að ná tökum á landinu.

Að því er síðara atriðið snertir, þá mun jeg ekki fara inn á það nú og segi ekki heldur, að sá sje tilgangurinn hjer. En jeg vil að eins minna á í því sambandi, orð látins heiðursmanns, Magnúsar Stephensens, landshöfðingja. Hann komst einu sinni svo að orði: „Timeo Danaos et dona ferentes“.

En þá er auðsætt, að þó að málinu verði frestað, muni það ekki verða til þess að ýta miljónunum burt, því að það er vitanlegt, að ef aðstandendurnir eru djúphygnir fjármálamenn, sem komist hefðu að þeirri niðurstöðu, að afl íslensku fossanna gæti ávaxtað miljónir, þá mundi ársfrestur ekki reka þær til baka. Enda er þess að gæta, að ef þeim byðist annað arðvænlegra fyrirtæki, standa þeir óbundnir og gætu snúið sjer að því. Jeg hefi það fyrir satt, og ber þar fyrir mig orð verkfróðra manna, að hagnýting á þessum fossöflum, sje eitthvert hið arðvænlegasta fyrirtæki, sem hægt er að hugsa sjer. Einn úr stjórn þessa fjelags hefir sagt, að afl þeirra fossa, sem hjer um ræðir, væri 4% af vatnsafli landsins. Jeg skal ekki segja neitt um, hvað hæft kann að vera í þessu, en jeg veit þó, að það er mikill munur, hvert fossaflið er og hvar það er. Og eins og vjer vitum, og heyrðum af ræðu hv. flm. (E.P.), eru þessir fossar í hjarta landsins, þar sem búast mætti við mestum framförum. Og ef vjer lítum yfir þróun þessa þjóðfjelags á síðari árum, sjáum vjer, að hjer eru að verða til stórefnamenn, og að vjer erum sjálfir farnir að trúa því, að landið hafi mikil auðæfi að geyma, og með því að vjer vitum, að miljónirnar utan úr heimi eru farnar að sækjast eftir þessum auðæfum, þá er sýnilegt, að vjer verðum að gera alt, sem í voru valdi stendur, til þess að vernda þau. Og þó að vjer höfum ekki nægilegt fje til þess að vinna úr þeim, verðum vjer að vera reiðubúnir, þegar miljónirnar koma. Vjer verðum að gæta þess, að vjer höfum tökin á þeim, en þær ekki á oss.

Annars skal jeg geta þess, í sambandi við fossana í Soginu, að þar er vatnið sjerstaklega tært, að því er verkfróðir menn segja, og betra til notkunar en úr mörgum fossum öðrum.

Oft hefir verið talað um það, að þarflegt væri að beisla fossana. Og þetta er hverju orði sannara. En svo er það best, að vjer höldum þá sjálfir í tauminn.

Sú sögn gengur um Sæmund fróða, að hann hafi synt á sel til landsins og haft í hendi saltara, til þess að selurinn næði ekki valdi yfir honum. Þegar miljónirnar koma, verðum vjer að halda á saltara íhugunarinnar og sjálfstæðisins, til þess að drotna yfir miljónunum, en láta þær ekki drotna yfir oss.

Með skírskotun til þess, sem nú hefi jeg sagt, leyfi jeg mjer að bera upp svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Mál þetta er vandasamt og kemur seint fram og að óvörum, og er því engin von þess, að þingmenn geti aflað sjer nægilegrar þekkingar á því nú á þinginu. Nauðsyn ber til þess, að stjórn landsins rannsaki, hvernig helst skal fara með vatnsafl landsins, svo að trygður sje hagur þess í nútíð og framtíð, áður en nokkuð verður gert í því máli. Deildin tekur því fyrir næsta mál á dagskrá, í von um, að stjórnin geri þetta.

Ástæðan, sem liggur til þess, að jeg legg til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, er sú, að mjer er fullljóst, að það er algerlega óhugsandi, að þetta þing geti afgreitt það. Og með því líka að það hefir ekki getað tekið ákveðna afstöðu til málsins, er fyrirsjáanlegt, að þó að það yrði látið fara í nefnd, mundi niðurstaðan ekki verða önnur en sú, að því yrði vísað aftur til stjórnarinnar. Og þar eð liðið er á þing og ýms stórmál liggja fyrir, er eðlilegast að vísa þessu máli þangað, sem það áreiðanlega fer. Jeg þykist fullviss þessa fyrirfram og byggi þá vissu á trú, sem jeg hefi á fyrirhyggju hv. Alþingis.