10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í C-deild Alþingistíðinda. (3568)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Flm. (Eggert Pálsson):

Það er að vísu erfitt verk, eins og öllum er ljóst, að eltast við athugasemdir háttv. 2. landsk. þm. (S.E.) við frv., jafnmargar og þær voru, og jafngengdarlausar mótsagnir sem hann komst í við sjálfan sig.

Til dæmis um það, í hversu greinilegar mótsagnir hann komst við sjálfan sig, skal jeg benda á það, að hann gerir ráð fyrir, að þegar búið sje að draga fyrningu frá og 5% handa hluthöfum, muni gróði landssjóðs ekki verða mikill, og meira að segja enginn. En jafnframt heldur hann því þó fram, að hjer sje um mjög arðvænlegt fyrirtæki að ræða, er geti gefið landssjóði stórfeldar tekjur, hafi hann það til eignar og umráða. Ef hjer er ekki greinileg mótsögn hjá þm. (S.E.), þá skil jeg ekki, hvað mótsögn er. Hann hefði átt að gæta þess, er hann söng fossum þessum lofið sem mest, að þeir eru þegar orðnir eign fjelagsins og geta ekki komið landinu að liði öðruvísi en í höndum þess. Hann hefði átt að gæta þess, að því meira lof sem hann syngur þeim, því dýrari má álíta að þeir verði, ef til þess kæmi, að landssjóður vildi eignast þá.

Hv. 2. landsk. þm. (S.E.) bar upp tvær spurningar. Fyrri spurning hans var það, hverskonar fjelag þetta væri, sem hjer væri um að ræða. Hæstv. forsætisráðherra hafði þegar lýst fjelaginu fullgreinilega, svo að spurningin var því algerlega óþörf. Hann benti á, að í stjórn þess sætu áreiðanlegir peningamenn. Hluthafana taldi hann að vísu ekki upp, enda geri jeg ráð fyrir, að landssjóð varðaði ekki mikið um nöfn þeirra. En það lítur út fyrir, að hv. 2. landsk. þm. (S.E.) álíti, að alt sje undir mannanöfnunum einum komið.

Önnur spurning hv. 2. landsk. þm. (S.E.) var sú, hvað fjelagið ætlaði að gera. Þessi spurning lýsir því, að hann hefir ekki einu sinni lesið innganginn að frv. Því að þar segir, að fjelagið sæki um „leyfi til að leiða aflið úr Soginu, milli Þingvallavatns og Hvítár, til Reykjavíkur, eða annarar hafnar, í rafmagnsleiðslum, hvort heldur ofan jarðar eða neðan, leggja járnbraut og vegi og gera höfn og önnur þau mannvirki, sem nauðsynleg eða æskileg eru, til þess að geta notað vatnsaflið.

(S.E.: En hvað ætlar fjelagið að gera?). Og samt sem áður spyr þm. (S.E.), hvað fjelagið ætli að gera. Mjer dettur ekki í hug, að hv. 2. landsk. þm. (S.E.) sje svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að þar sem fjelagið ætlar að framleiða rafmagn og leggja leiðslu fyrir það, þá muni það ekki láta kraftinn streyma ónotaðan. (S.E.: Þingmaðurinn skilur ekki). Auk þess stendur hjer skýrum stöfum, að fjelagið vilji selja iðnaðarafurðir sínar við sanngjörnu verði, svo að af því mætti hann sjá, að fjelagið ætlar að nota rafmagnið til iðnaðar; hann veit, eins og aðrir, að fjelagið mun leggja mesta áherslu á að vinna áburð úr efnum í loftinu.

Þá fáraðist hv. 2. landsk. þm. (S.E.) mjög um það, að fjelagið væri undanskilið sköttum. (S.E.: Tollum og sköttum sagði jeg). Jæja, það kemur í sama stað niður. Fjelagið er alls ekki skattfrjálst, með því að því er ætlað að greiða landssjóði 10% af ágóða fyrirtækisins, þegar hluthafar hafa fengið vanalega vexti, að eins 5%. Þar að auki býðst fjelagið til að láta landinu í tje afnot af járnbrautum, gegn hæfilegu, umsömdu gjaldi, enn fremur iðnaðarafurðir sínar eða áburðarefni, gegn borgun, sem svari til framleiðslukostnaðarins. Að minsta kosti er það ljóst, að unnið í landinu verður það margfalt ódýrara en ef að væri flutt, því að við það sparast aðflutningskostnaðurinn.

Hv. 2. landsk. þm. (S.E.) sagði, að þó að gefið væri í skyn, að fjelagið ætlaði að leggja járnbraut, þá mundi það ekki hafa nægan rafmagnskraft til þess að reka hana. Um þetta getur hvorugur okkar dæmt af eigin þekkingu. En jeg hefi orð verkfróðra manna fyrir því, að rafmagnsaflið, sem þyrfti til járnbrautarrekstrar, sje hverfandi, í samanburði við þann kraft, sem Sogsfossarnir geta í tje látið.

Jeg nenni ekki að eltast við einstakar athugasemdir hv. 2. landsk. þm. (S.E.). Það má segja um þær, eins og þar stendur, að „sumt var gaman, sumt var þarft, um sumt vjer ekki tölum“. En það, sem þarft var af athugasemdum hans, kæmi best nefndinni að notum, og því ætti hann ekki að rísa öndverður gegn því, að þingnefnd gæti haft einhver not af þeim.

En þó að þm. (S.E.) væri svona margorður, ætlaðist hann augsýnilega ekki til, að tekið væri neitt mark á því, sem hann sagði, þar sem hann vildi svæfa málið nú þegar.

Hv. þingdeild er sjálfráð um það, hvort henni finst sæmandi að kæfa slíkt stórmál sem þetta. En ef hún kæfir málið, álit jeg hana ekki hæfa til að meta það ástand, sem nú er. Mundi það t. d. ekki hafa komið sjer vel að hafa rafmagn á reiðum höndum, bæði til ljóss og hitunar, hjer í Reykjavík á þessum tímum, — jafndýr og því nær ófáanleg sem kol eru nú orðin.

Hitt er annað mál, hvort deildin vill afgreiða málið nú fyrir fult og alt. En það, að hún taki það ekki til alvarlegrar íhugunar, finst mjer hreint og beint óafsakanlegt.