10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í C-deild Alþingistíðinda. (3569)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Sigurður Eggerz:

Jeg skildi ekki tal hv. 1. þm. Rang. (E.P.) um mótsagnir í ræðu minni. (E.P.: Það er nóg, að deildin skilji það). Því að þó að jeg segi, að fyrirtækið sje arðsamt, þá má hafa alt fyrirkomulagið þannig, að lítið af arðinum renni í landssjóð. Þetta hefir hv. 1. þm. Rang. (E.P.) ekki skilið. (H.H.:Saka það um reikningsfölsun?). Nei, jeg saka það ekki um reikningsfölsun, en á ýmsan annan hátt má haga fjelögum svo, að landssjóðsarðurinn verði lítill. Háttv. 1. landsk. þm. (H.H.) er altaf svo viðkvæmur, ef minst er á eitthvað danskt.

Annars kendi allmikils ákafa í ræðu hv. 1. þm. Rang. (E.P.). Hann óð upp — ef mjer leyfðist að komast svo að orði — með ákaflega miklum bægslagangi. En mjer kom það ekki á óvart, því að þetta er ekki í fyrsta skifti, sem jeg hefi sjeð hv. þm. (E.P.)eiga kost á að taka á móti erlendum miljónum. Það var í fyrsta sinn árið 1913. Jeg man, hvernig hann vildi þá gleypa við járnbrautartilboðinu sæla. En það tilboð er nú með öllu fordæmt. Mjer kom þess vegna það ekki á óvart, þó að hv. þm. (E.P.) vildi taka feginshendi við þessu tilboði.

Hv. þm. (E.P.) furðaði sig á, að jeg skyldi spyrja hann að því, hvað fjelagið ætlaði sjer að gera, þar sem það væri tekið fram í innganginum að frumvarpinu. En það, sem þar er tilgreint, er vitanlega ekki markmið fjelagsins, heldur meðal að marki, því að vitanlega er þessum miljónum ekki stefnt hingað til þess að byggja hafnir og leggja járnbrautir, ekki heldur til þess að setja kraft á Suðurlandsundirlendið; hitt er afturvíst, að ef járnbraut verður bygð eða hafnir gerðar, þá er það auðvitað til þess að greiða fyrir því marki, fyrir þeim gróðafyrirtækjum, sem fjelagið ætlar að setja á stofn. Eins er það vitanlega ekki markmið fjelagsins að leiða kraftinn í rafmagnsframleiðslum til Reykjavíkur, heldur er það vitanlega einnig gert til þess að ýta einhverju af stað með þeim krafti, sem þannig er leiddur. Mjer virðist því ljóst, að hv. þm. (E P.) hefir talað hjer af æði litlum skilningi. Nei, mark fjelagsins er ekki neitt af þessu, — hitt er trúlegra, að mark fjelagsins sje það, sem fleygt hefir verið utan þings, að vinna áburð úr loftinu.

Þar sem hv. þm. (E.P.) sagði, að á sama stæði, hvort stjórnendur fjelagsins hjetu Pjetur eða Páll, þá er að vísu mikið hæft í því. En þó býst jeg við, að hv. Alþingi verði mjer sammála um það, að ekki standi alveg á sama, hverjir með fjeð fari. Þess vegna er það ekkert móti líkum, að maður spyrji, hverjir standi hjer á bak við. Forsætisráðh. gat þess reyndar, að vandaðir og áreiðanlegir peningamenn væru í stjórn fjelagsins. En vjer vitum samt langtum oflítið um fjelagið. Jeg hefi t. d. heyrt, að orðið hafi direktörskifti fyrir fjelaginu hjer á landi síðustu dagana. Annars vitum vjer, að þeir Íslendingar, sem að stjórninni standa, eru heiðursmenn. En jeg hefi aldrei heyrt, að þeir væru neinir sjerstakir fjámálamenn. Hví skyldi stjórnin ekki vera skipuð aðalfjármálamönnum vorum? Það væri þó töluverð trygging.

Hv. 1. þm. Rang. (E.P.) vildi vefengja þau ummæli mín, að fjelagið væri undanþegið tollum og sköttum, og vitnaði í 7. gr., máli sínu til stuðnings. Þar segir:

„Leyfishafi er undanþeginn vörutolli á efni til mannvirkja sinna og iðnaðarframleiðslu, úlflutningsgjaldi af iðnaðarafurðum sínum, svo og öllum öðrum sköttum og tollum til landssjóðs, gegn því að greiða 10% af ágóða fyrirtækisins“, o. s. frv. Er nú ekki auðsælt, að jeg hefi farið með rjett mál? Hitt er annað mál, að mjer kom auðvitað ekki til hugar, að fjelagið yrði undanþegið útsvari, enda er það ekki talið til skatta eða tolla.

Þá lagði þm. (E.P.) mikla áherslu á eitt atriði, sem jeg gat ekki skilið. En það var, að fjelagið legði járnbraut austur. Ef vjer lítum á frumvarpið, sjáum vjer, að þar stendur ekkert loforð um járnbrautarlagningu. Eina loforðið, sem þar er gefið, er að selja landinu rafmagn, en að leggja járnbraut eftir vissum ástæðum. En það þarf svo sterka strauma til þess að framleiða áburð, að komið gæti fyrir, að ekkert rafmagn yrði afgangs til járnbrautarrekstrar.

Þá furðaði hv. þm. (E.P.) sig á því, að jeg skyldi gera þessar athugasemdir, þar sem jeg ætlaðist til, að þær yrðu ekki teknar til greina. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. (E.P.). Jeg ætlaðist til, að hæstv. stjórn tæki þær til greina, því að jeg sagði, eins og rökstudd dagskrá mín ber líka ljósast vitni um, að ekki bæri að kyrkja málið, heldur teldi jeg rjett að fela stjórninni það. Er þetta þá sama sem jeg leggi til, að málið sje drepið ? Ætlun mín var einmitt sú, að málið yrði rannsakað gaumgæfilega af færum mönnum.

Jeg er alveg sannfærður um það, hvernig sem menn kunna að öðru leyti að skiftast um þetta mál, að þá skiftast menn ekki um það að krefjast þess, að áður en þetta mál er afgert, þá verði það íhugað nákvæmlega og samviskusamlega. Og jeg veit, að það eru fleiri en jeg, sem líta eins á málið, menn, sem sjá, að sumt er gott í málinu, en það er geigur í þeim við að afgreiða málið, þegar svo er á liðið þingtíma; það held jeg að sje trauðla sæmilegt fyrir Alþingi Íslendinga, og jeg held, að það væri erfitt fyrir Alþingi að verja þær gerðir sínar frammi fyrir dómstól þjóðarinnar, og það því fremur, þar sem saga annara þjóða hefir sýnt það, að þær verða fyrir stórfeldum skaða, ef löggjafarnir sýna fljótfærni í slíkum tilfellum.

Jeg hygg, að það væri glapræði, ef frv. þetta væri nú afgreitt undirbúningslaust og án athugunar. Því að mál þetta þarf mjög ítarlegs undirbúnings við, og gæti jeg í því efni ímyndað mjer, að nauðsynlegt væri að senda mann eða menn til Noregs, til þess að rannsaka sögu og gang fossamálanna þar.