10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í C-deild Alþingistíðinda. (3570)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Flm. (Eggert Pálsson):

Jeg skal ekki lengja mikið umræður um þetta mál hjeðan af, enda hygg jeg, að það græðist ekki svo mikið á því, þótt háttv. 2. landsk. þm. (S.E.) og jeg þráttum um það fram og aftur.

Jeg vil að eins benda á það, er kom fram siðast í ræðu háttv. þm. (S.E ), áður en hann settist niður. Hann lagði mikla áherslu á það, og það tók sig út sein aðalályktanir í ræðu hans, að það væri viðurhlutamikið að afgreiða málið svona fljótt eins og hjer stæði til. Það leit út eins og háttv. þm. (S.E.), hefði verið að dreyma, að málið væri afgreitt frá háttv. Nd og væri nú til síðustu (3.) og lokaumræðu hjer í háttv. deild. En það er langur vegur frá, að svo sje; málið er nú að eins til fyrstu umræðu á þinginu, og hefir enn þá ekkert verið athugað, hvorki af nefnd nje í deildum þingsins, svo að hin rökstudda dagskrá þingmannsins (S.E.) er því með öllu ótímabær.

Enn fremur tók jeg eftir því, að háttv. 2. landsk. þm. (S.E.) sló því fram, og jeg vil leyfa mjer að viðhafa sama orðatiltæki og hann viðhafði um mig, „með miklum bægslagangi“, að þjóðin heimtaði, að málið væri íhugað. En hann fer beint í bág við þetta, er hann leggur til, að málinu sje vísað frá eftir stundar umræðu, því að með því tekur hann beint fyrir kverkar málsins, svo að þingið getur engan veginn íhugað það. Eða ætlar háttv. 2. landsk. þm. (S.E.), að það sje nóg, að hann hafi mjög lausagopalega íhugað, eða réttara sagt gasprað, um málið? Þótt jeg viti háttv. þm. (S.E) vera talsvert upp með sjer, þá geri jeg þó ekki ráð fyrir því, að við nánari íhugun sje hann svo „innbilskur“.

Jeg skal ekki þrátta frekar um þetta, að svo vöxnu máli. Hvort hv. deild vill athuga málið eða drepa sýnir hún með atkvæðagreiðslunni. Jeg læt það fara sem verkast vill, en jeg vil, að þinginu gefist kostur á að íhuga það, því að það hlyti þó að minsta kosti að verða góður stuðningur fyrir stjórnina, ef hún síðar kynni að fá það til meðferðar.