10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í C-deild Alþingistíðinda. (3572)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg skal leyfa mjer að skýra betur orð mín út af athugasemd háttv. þm. Ísaf. (M.T.). Hann talaði um, að jeg hefði sagt, að jeg væri þessu frv. fylgjandi, en jeg sagði, að jeg væri þessu frv. ekki að öllu leyti fylgjandi, en jeg sagði, að jeg væri málinu fylgjandi og jeg áliti það óforsvaranlegt af þinginu að líta ekki á það, en það vilja mótstöðumenn þess ekki. Þeir tala um, að það væri ef til vill ástæða til þess að taka þessa fossa af fjelaginu, og vil jeg þá geta þess, að það hefir verið farið fram á það af bæjarstjórn Reykjavíkur. En ef það á að taka fossana af fjelaginu, þá á að gera það strax; hitt finst mjer óeðlilegt og enda mótsögn, að vilja bíða með það, þegar þeir verða því dýrari, sem lengra liður.

Jeg skil það vel, að menn vilji athuga málið áður en því er ráðið til lykta, en það finst mjer óeðlilegt, að þeir, er á móti málinu mæla, vilja ekki að það fari til nefndar og verði athugað þar. Það liggur þó í augum uppi, að það er styrkur fyrir stjórnina, að nefnd hefði athugað málið, ef því yrði síðar vísað til hennar.

Hugsum oss enn fremur, að stjórnin yrði aldrei fyllilega samdóma um málið. Ætti það þá að bíða og bíða eftir því að hún yrði það. Það hafa mörg lög verið samþykt á Alþingi, sem stjórnin hefir ekki átt neinn þátt í, mál, jafnvel samþykt á móti vilja hennar. Og mjer finst það ekki vera sjálfsagt, að slíkt mál sem þetta valdi stjórnarskiftum.

Annars sýnast mjer allar þessar ræður vera fremur óþarfar. Mjer sýnist hjer vera um tvent að velja, annað að vísa málinu alveg á bug — og þeir, sem það vilja, samþykkja dagskrána — og hitt að athuga málið — og þeir vísa því til nefndar, og gæti stjórnin þá fengið eitthvað, sem væri henni til leiðbeiningar.