10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í C-deild Alþingistíðinda. (3573)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Magnús Torfason:

Mjer fanst hæstv. forsætisráðherra líta svo á síðast í ræðu sinni, sem það væri einskonar mótsögn í því að vísa málinu til stjórnarinnar, en vilja ekki láta það komast í nefnd.

Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að með þeim þingönnum, sem nú eru, treysti jeg mjer ekki til að taka neina ákveðna afstöðu í málinu á þessu þingi (H. H: En næsta?), en tillagan fer fram á það, að stjórnin undirbúi málið með allri þeirri kunnáttu, sem hún hefir ráð á að afla sjer. Og það er ekki svo langt að bíða næsta þings; jeg gæti búist við því, að það yrði á næsta vori.

Jeg get ekki heldur skilið orð hæstv. forsætisráðherra um, að umræðurnar hjer væru óþarfar; jeg hjelt, að það væri gott fyrir stjórnina að fá nokkrar bendingar í umræðunum um málið.

Öðru hefi jeg ekki að svara, nema því einu, að mjer hefir aldrei dottið í hug, að þingið gæti nú afráðið nokkuð um það, hvort rjett væri að kaupa fossana eða ekki.