31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í C-deild Alþingistíðinda. (3581)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Eins og mönnum er kunnugt var bannaður útflutningur á smjöri í vetur. Við því var ekki mikið að segja. Eins og ástatt var mun mega telja það nauðsynlega ráðstöfun. En nokkru síðar setti verðlagsnefndin hámarksverð á smjörið, og þá þótti mörgum skörin fara að færast upp í bekkinn. Vafalaust hefir verðlagsnefndinni gengið gott til með þessari ráðstöfun. Hún hefir með því ætlað að gera fátækara fólkinu hjer í Reykjavík það kleift að ná sjer í viðbit. En vist er um það, að niðurstaðan hefir orðið alt önnur. Síðan hámarksverðið kom hefir miklu minna verið framleitt af smjöri heldur en áður og heldur en gert hefði verið, hefði ekkert hámarksverð verið til. Og þó að ýmislegt hafi verið gert til þess að hvetja menn til að auka smjörframleiðsluna, þá hafa þær hvatningar komið að miklu minna haldi, vegna hámarksverðsins.

Í Smjörbúasambandi Suðurlands eru 18 smjörbú, en af þeim eru nú að eins 9 starfandi, og er aðalástæðan hámarksverðið á smjörinu. Að vísu má geta þess, að hámarksverðið hefir verið hækkað frá því, sem það var fyrst í vetur, svo að það er nú kr. 1,80 pd. En með það verð eru framleiðendur ekki ánægðir og álíta, að hámarksverð megi ekki vera lægra en 2 kr., þegar borið er saman við það, að heimasmjör, vel verkað, kostar kr. 1,50 pd.

Þessar eru þá afleiðingar hámarksverðsins á smjörinu. Fyrst og fremst, að miklu minna smjör er framleitt en ella mundi. Í annan stað er farið í kringum þetta hámarksverð, og hafa menn jafnvel fengið bendingar um það frá manni úr verðlagsnefndinni, hvernig hest sje að hliðra sjer hjá þessum ákvæðum. Þessi er ein aðferðin: Maður í sveit gerir samning við Reykjavíkurbúa um kr. 1,50 fyrir pundið af smjöri, og að auki þóknun fyrir umbúðir og flutning, og fer sú viðbót eftir samkomulagi. Þannig fara menn að því að selja vöruna yfir hámarksverði, án þess að hægt sje að segja, að lögin sjeu með því brotin.

En alt hefir þetta leitt til þess, að smjörið hefir lent hjá einstökum mönnum, en tilgangi verðlagsnefndar, sem sje að tryggja fátæklingum smjör, hefir ekki orðið náð, heldur þvert á móti. Fátæklingar hafa aldrei verið eins illa settir og nú, með að ná í smjör, og er það fyrst og fremst að kenna hámarksverðinu, sem leiðir til þess, að minna er framleitt af smjöri en ella hefði verið. Þess vegna álitum vjer flm. till, að tími sje kominn til þess að afnema hámarkið, og gera það strax, og í þá átt miðar tillagan. Það er ef til vill nokkuð seint að verið, en ef þessu væri nú þegar af ljett, þá held jeg, að smjörbúin muni starfa með meira krafti en hingað til, því að legið hefir við borð, að þau þeirra, sem hafa verið starfandi, legðu niður starfsemi sína.