31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í C-deild Alþingistíðinda. (3583)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Matthías Ólafsson:

Hæstv. forsætisráðherra hefir nú tekið það fram að mestu, sem jeg ætlaði mjer að segja.

Það er undarlegur hugsunargangur hjá háttv. flm. (S.S.), að fátæklingum verði ljettara að ná í smjör ef hámarksverðið verður fært upp. Það er alveg öfugt, eins og liggur í augum uppi. Og öll rök, sem hann reyndi að færa fram, voru röng; það er alveg óhugsanlegt, að taka megi meira fyrir smjör en þetta, þegar borið er saman við verðið, sem áður var. Jeg man ekki betur en að bændur segðu, að þeir vildu fá sama verð fyrir sína vöru hjer, sem þeir gætu fengið fyrir hana á heimsmarkaðinum. En nú vilja þeir fá hærra verð fyrir smjörið en hægt er að fá það fyrir frá Danmörku; öldungis jafngott smjör eða jafnvel betra má nú fá hingað flutt á kr. 1,72 pd., þrátt fyrir þann afardýra flutning, sem nú er. Jeg sje þá og ekki heldur, hvert gagn er að því að hanna útflutning smjörs, ef bannað er að leggja verðlag á það.