31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í C-deild Alþingistíðinda. (3586)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Forsætisráðherra (J.M.):

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi ekkert gagn að hámarksverðinu á smjöri, af því að það lenti í fárra manna höndum. Jeg vil nú segja, að rjett hafi verið að setja þetta hámarksverð, en líka ætti að sjá um, að allir fengju smjör. Það er nú frekar bæjarmál en þingmál, og matvælanefnd bæjarins hefði sjálfsagt gert það, ef hún hefði treyst sjer til þess. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnarráðið treysti sjer ekki til að skamta þetta litla smjör frá rjómabúunum. Það yrði bæði mjög dýrt og erfitt að útbúa smjörið svo smátt, að það gæti farið í sendingunum til flestra neytenda. Í samráði við rjómabúin var einmitt ákveðið, að hver smjörpakki skyldi vera minni en tíðkast hefir. Jeg veit ekki, hvort hv. 2. þm. Árn. (E. A.) álítur, að hægt sje að fyrirbyggja, að verðlagsnefnd setji hámarksverð á smjör, öðruvísi en með lagabreytingu, en jeg a. m. k. hefi skilið lögin þannig, að stjórnarráðið geti að vísu breytt ákvæðum verðlagsnefndar, en tæplega bannað henni að setja hámarksverð á þá vöru, er henni líst. Jeg held, að óhætt sje að segja, að hámarksverðið á smjör hafi ekki verið sett ófyrirsynju, því að það barst svo ákaflega lítið til bæjarins, að milliliðirnir notuðu sjer og sprengdu verðið upp. Bændur fengu víst ekki fullar 2 kr. fyrir pundið, en milliliðirnir seldu það á alt að því 2,50 kr. Það hefði mátt kalla okur, og ekkert á móti, að það væri hegningarvert, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) drap á. Þingið og stjórnin hefir ekki enn tekið þá leið að takmarka, hvað milliliðir megi leggja mest á vöruna, en það hefir verið gert víða í öðrum löndum. Jeg skal ekki fara meira út í það, en vil taka fram, að jeg álit formlegra að taka alveg valdið af verðlagsnefndinni, ef á annað borð á að ónýta gerðir hennar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) taldi rangt af stjórninni að gefa meira fyrir rjómabúasmjörið en smjör búið til á sveitaheimilunum sjálfum, en hv. 1. þm. Árn. (S.S.) gat þess, að munurinn hefði einmitt verið oflítill. Jeg held, að hann hafi áreiðlega ekki verið ofmikill. Það getur vel verið, að mörgum þyki heimatilbúið íslenskt smjör eins ljúffengt, en munurinn er sá, að það er miklu meiri mjólk í heimagerðu smjöri. Það benda allar rannsóknir ótvírætt á, þótt vitanlega geti verið til undantekningar.

Eitt þótti mjer dálitið spaugilegt í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Honum þótti ófært að leggja hámarksverð á vöru, sem framboðið væri lítið á. Jeg held nú, að ef framboðið væri nóg eða ofmikið, þyrfti ekki að setja hámarksverð. Annars finst mjer, sem sagt, að þessar umræður eigi frekar við það, hvort verðlagsnefndin skuli starfa áfram eða ekki, því að lögin um skipun verðlagsnefndar gera ráð fyrir, að úrskurður hennar um, á hvaða vörur sje sett hámarksverð, eigi að gilda. Mjer skilst hv. flm. (S.S.) meina, að rjettara sje, að nefndin setji ekkert hámarksverð á smjör, og ef það á að fyrirbyggja, verður það að gera með lögum.