31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (3588)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Þórarinn Jónsson:

Jeg gæti nú næstum því fallið frá orðinu, því að það er að bera í bakkafullan lækinn að hnjóða í þessa verðlagsnefnd. En, satt að segja, þykir mjer aðferð hennar vera nokkuð einkennileg. Hún átti, eins og allir vita, að sjá um, að ekki yrði okrað hjer á nauðsynjavöru, hvorki innlendri nje útlendri. En hvað gerir hún? Hún tekur þá eina eða tvær vörutegundir út úr, sem framleiddar eru hjer á landi, og markaður er fyrir hjer í Reykjavík, en hún skiftir sjer ekkert af því, þótt okrað sje hjer með útlendar vörur. T. d. skal jeg taka það, að hingað til bæjarins er flutt mikið af útlendu smjörlíki, en nefndin ber ekki við að leggja fullkomnar hömlur á það, að verðið á því sje látið stíga upp úr öllu valdi. Nú segir einn þessara hv. nefndarmanna, hv. 1. þm. Reykv. (J.B.), að ógerlegt sje að leggja verðlag á útlenda vöru, sökum þess, hve kostnaðurinn sje mismunandi við innkaup hennar.

Þetta er ekki rjett, og jeg vil benda honum á þá leið, sem fara ber til þess að taka fyrir alt í einu. Nefndin átti að beina því til stjórnarinnar að gefa út bráðabirgðalög um það, hve mikið „%-vís“ kaupmenn mættu leggja á vöru sína, að frádregnum öllum kostnaði. Urðu þá allir að hlíta sama hagnaði, og sýnist það ekki óviðeigandi. Náttúrlega varð að skylda kaupmenn til að sýna alla reikninga, og ætti það ekki að þykja óhæfa nú á tímum. Þetta eftirlit áttu sýslumenn að annast. Jeg vænti þess, að nefndin fari nú að starfa að þessu.

Það er nú á allra manna vitorði, að landssjóðsverslunin selur vörur sínar mjög dýrar, svo dýrar, að stöku kaupmenn hafa selt þar fyrir neðan. Eins er það vitanlegt, að eins og verð varanna hækkar nú mjög skyndilega með hverjum skipsfarmi, þá geta kaupmenn, sem liggja með einhverjar vörubirgðir, hækkað undir eins verð þeirra þegar næsti farmur kemur og landssjóður hefir kveðið upp verð á sinni vöru. En verðlagsnefndin ber ekki við að skifta sjer af slíku. Hún tekur aftur á móti það ráð að segja innlendri framleiðslu stríð á hendur, og afleiðingin af því er þegar orðin sú, að verð vörunnar hækkar í þeim hjeruðum, sem varan var í lægra verði en nefndin ákveður, en aftur á móti er varan ekki fáanleg á öðrum stöðum, nema gegn vöruskiftum, svo að ákvæði nefndarinnar koma hvergi að gagni, en eru alstaðar til ills eins. Það er t. d. á allra vitorði, að það smjör, sem Reykjavík hefði fengið, ef nefndin hefði ekki sett þetta hámarksverð, er nú selt á Suðurnesjum í skiftum fyrir fisk, en Reykjavík fær ekki neitt.

Jeg get tekið undir það með hæstv. forsætisráðherra, að best væri að taka alveg valdið af nefndinni, því að hún hefir ekkert gert nema það, sem leitt hefir til óhagræðis, og orðið þar að ógagni, sem það átti að hjálpa. Jeg álít sem sagt, að ekki sje rjett að takmarka neitt verð á innlendum vörum, því að það kemur aldrei að tilætluðum notum, og er auk þess í eðli sínu ranglátt, meðan útlenda varan er ekki tekin eins fyrir.