13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Frv. þetta er mjög líkt lögum þeim, sem nú eru í gildi, frá 22. okt. 1912. Aðalbreytingin er ákvæðið í 3. gr. frv., að leggja skuli 4 kr. gjald á hvert steinolíufat, sem renni að ¾ hlutum í landssjóð, en að ¼ hluta í veltufjár- og varasjóð steinolíuverslunarinnar. Ekki er auðvelt að segja, hve miklu þetta gjald myndi nema, en hefði gjald þetta verið lagt á steinolíu fyrir ófriðinn, hefði það numið:

1911 kr. 94,296,00

1912 — 93,468,00

1913 — 118,000,00

1914 — 88,600,00

Líkindi eru til, að steinolíuflutningur muni aukast eftir ófriðinn, og ætti gjaldið þá að gefa nokkru meira af sjer. En þó að það næmi meiru, munu allir sjá, að hjer er ekki um mikinn skatt að ræða.

Nefndin hefir ekki gert neinar brtt. við frv., en leggur til, að það verði samþykt óbreytt. Annars hefi jeg ekki leyfi til að segja annað fyrir nefndarinnar hönd, en það, sem tekið er fram í nefndarálitinu, er jeg býst við að hv. deildarmenn hafi kynt sjer rækilega. Vonar nefndin, að frv. nái fram að ganga.

Um skoðun mína á málinu vil jeg vísa til þess, er jeg sagði 1912, er samskonar frv. var til umræðu. Þá lagði jeg áherslu á, að rjettast væri, að verslunin væri frjáls. En hins vegar er ástæðan til þess, að jeg felst á frv., hin sama sem jeg tók þá fram, að jeg get felt mig við, að landssjóður taki einkasölu á sjerstökum vörutegundum, sem einokun er þegar orðin á. Nú er svo komið, að kalla má, að einokun sje á steinolíu, þar sem kaupmenn hafa orðið að binda sig samningum við eitt fjelag. Fellst jeg því á frv.

Annars er hjer ekki um neitt nýtt að ræða. Landsstjórnin hefir sömu heimild samkvæmt núgildandi lögum. Hið eina, sem er nýtt, er 4 kr. gjaldið á hverri tunnu, eins og þegar er tekið fram. Ástæðan til þessarar breytingar er sú, að takist verslunin vel, rennur þetta gjald, sem annars hefði farið í vasa kaupmanna, beina leið í landssjóð. Jeg ætla ekki að minnast á brtt. fyr en flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim. Annars vona jeg, að háttv. deild taki frv. þessu vel.