03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í C-deild Alþingistíðinda. (3598)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg get ekki sagt annað nú en jeg sagði í fyrri umr. þessa máls, að jeg tel stjórninni ómögulegt að gera það, sem þingsál.till. fer fram á. Mín skoðun er sú, að það bryti í bága við lögin um skipun verðlagsnefndar, og jeg endurtek það nú, eftir að hafa heyrt skýringu hv. flm. (S.S.), að til þess, að stjórnin geti orðið við þessum tilmælum, verður að breyta lögunum. Jeg sje líka, að hjer kemur bráðlega frv. um breytingu þeirra laga, og vil því leyfa mjer að stinga upp á því við hv. flutningsmenn, að þeir láti þessa till. bíða, þangað til það frv. er fram komið. Það er ekki svo að skilja, að stjórnin vilji ekki verða við þessum tilmælum, en hún getur nú ekki farið eftir öðru en sinni eigin sannfæringu. Jeg veit, að einhver besti lögfræðingur landsins er á annari skoðun en jeg í þessu máli, en þótt jeg vanalega trúi skýringum hans, get jeg það þó ekki að þessu sinni.