03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í C-deild Alþingistíðinda. (3599)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla að eins að segja örfá orð, til að leiðrjetta misskilning hjá hv. 1. þm. Reykv. (J.B.), síðast þegar þetta mál var til umr. Hv. þm. (J.B.) áleit, að jeg hefði meint, að verðlagsnefndin ætti að gefa út bráðabirgðalög um álagning kaupmanna á útlendar vörur. En jeg tók það skýrt fram, að hún hefði átt að beina því til stjórnarinnar með ákveðnum tillögum sínum.

Viðvíkjandi því, að kaupmenn seldu með lægra verði en landsstjórnin, þá talaði jeg ekki um það sem alment. En þau tilfelli geta vel hafa orðið til þess, að verðlagsnefndin hafi ekki treyst sjer við kaupmennina, af því að þeir væru þar í skjóli landsstjórnarinnar, hversu mikla okuruppfærslu sem þeir settu á vörurnar.

Hvað hinn mismunandi kostnað á vörunum snertir og innkaupsverð, þá ættu sýslumenn, án mikils starfsauka, að geta haft þar fulltryggilegt eftirlit. Jeg vona, að verðlagsnefndin athugi þetta eftirleiðis, því að þetta er mjög þýðingarmikið atriði.