13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Hannes Hatstein:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari þýddi, að jeg áskildi mjer óbundið atkvæði um frv., ef jeg sannfærðist ekki um ágæti þess.

Jeg hefi ekkert á móti einkasölu á steinolíu. Jeg var sjálfur í nefnd þeirri, er bjó til gott og ítarlegt frv. um þetta efni, er lagt var fyrir þingið 1912. En þetta frv. er illa samið og ónákvæmt. Þingið 1912 drap hið vel undirbúna og rökstudda frv. nefndarinnar. En svo iðruðust menn þessa og komu fram með frv. líks efnis síðasta dag þingsins. Það frv. var flaustursverk, og nú eru þessi ólög komin fram sem frv. til laga frá landsstjórninni. Þó er felt í burt ákvæðið í 3. gr. frv., er heimilar landsstjórninni að afhenda innlendum hlutafjelögum og einstökum mönnum heimild sína og einkarjett til olíuinnflutnings. Að vísu er annað ákvæði sett inn í 2. gr. frv., er ef til vill mætti skýra á þessa leið, en jeg efast um, að það verði skilið svo. Ímynda jeg mjer, að menn muni skilja það á þá leið, að heimilt sje að leyfa mönnum að flytja inn steinolíu handa sjálfum sjer í einstöku tilfellum.

Jeg hefi ekki tekið ákvörðun um, hvort jeg greiði atkvæði með eða móti frv., ætla fyrst að sjá, hvernig fer um brtt.