03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í C-deild Alþingistíðinda. (3601)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Jörundar Brynjólfsson:

Hv. flm. (S.S.) gat þess, að jeg hefði misskilið orð sín um þær bendingar, sem verðlagsnefnd hefði gefið um, hvernig fara ætti í kringum hámarkslögin. Jeg bar verðlagsnefnd undan því ámæli sem slíka, og jafnframt hvern einstakan nefndarmann, en nú segir háttv. flutnm. (S.S.), að einn nefndarmaðurinn hafi gefið bendingu um það, hvernig hægt væri að fara í kringum hámarksverðið, og skora jeg á hv. flm. (S.S.) að nefna nafn hans.

Viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) vil jeg segja það, að það er varla von, að þingmenn viti, hvernig við höfum hagað störfum okkar, en öllum er frjálst að sjá plögg verðlagsnefndar og tillögur þær, er hún hefir gert til landsstjórnarinnar viðvíkjandi vöruverði og úthlutun.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) hefir misskilið orð mín viðvíkjandi því dæmi, er jeg nefndi um vöruverð í einu kauptúni við Breiðaflóa. Jeg tók það sem dæmi upp á það, að þótt vörurnar hjá landsstjórninni hafi verið dýrar, þá hafa kaupmenn þó selt sínar vörur enn dýrara, sumir hverjir. Þetta kauptún, sem jeg átti við, við Breiðaflóa, var Ólafsvík.