11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í C-deild Alþingistíðinda. (3607)

152. mál, landsspítalamálið

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Hv. þdm. munu hafa tekið eftir því, að í fjárlagafrv. eru ætlaðar 5.000 kr. til þess að undirbúa landsspítalamálið. Fjárveitinganefndin er á einu máli um það, að þörf sje á að búa málið sem best undir, en telur ekki rjett að veita allháa upphæð til undirbúnings, að svo vöxnu máli, undirbúnings, sem líklega yrði mest fólginn í því að flytja grjót og mylja o. s. frv. Nefndin lítur svo á, að málið þurfi sjerstaklega rækilegan undirbúning, og því er það samkvæmt tillögum landlæknis og annara manna, sem mestan áhuga hafa á málinu, að nefndin flytur þessa till. Mönnum kann nú að þykja viðurhlutamikið að skipa milliþinganefnd í þetta mál, en með því að nefndin gerir ráð fyrir, og mjer er óhætt að segja nálega með vissu, að þeir, sem líklegastir eru í milliþinganefnd, mundu ekki taka kaup fyrir starfa sinn, þá þurfa menn ekki að óttast þetta. Auðvitað verður að ætla eitthvert fje til burðargjalds, sendiferða o. s. frv., og það hefir nefndin áætlað 500 kr.

Það er margt, sem athuga þarf í þessu máli. Það er ekki nóg að koma sjer saman um, að spítalann skuli reisa; það þarf að ákveða, úr hvaða efni hann skuli verða, steini, steypu o. s. frv., hvar hann skuli standa, hve stór hann eigi að vera, og loks fyrirkomulagið, sem ekki verður hvað vandaminst, þar sem um er að ræða að koma fyrir, í minni húsakynnum en gerist um aðalspítala annara þjóða, samskonar tækjum eins og tekið er fram í greinargerðinni.

Jeg vona, að stjórnin taki því ekki illa, að nefndin leggur til að breyta undirbúningnum þannig, enda er tillagan í samræmi við vilja þeirra manna, sem einna mestan áhuga hafa á málinu.