11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í C-deild Alþingistíðinda. (3609)

152. mál, landsspítalamálið

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það kann að hafa verið ofdjúpt tekið í árinni hjá mjer, að að þessari till. stæðu þeir menn, sem mestan áhuga hafa á málinu. Það er gott, að sem flestir leggi kapp á það. En þeir, sem hafa lagt með till., hafa að minsta kosti mjög mikinn áhuga á því, að stofnunin verði í lagi.

Jeg sje ekki, að það þurfi að vera till. til fyrirstöðu, að gert er ráð fyrir, að nefndin vinni kauplaust. Það eru svo margir menn, sem unnið hafa að framgangi þessa máls endurgjaldslaust, að ekki er til mikils mælst, þótt farið sje fram á, að þeir, sem mikinn áhuga hafa á því, vinni þóknunarlaust að undirbúningnum. Það er satt, að stjórnin getur ekki lagt fyrir menn að gera þetta endurgjaldslaust, en að sjálfsögðu snýr hún sjer til þeirra manna, sem mestan áhuga hafa á málinu, og það er nokkurn veginn líklegt, að þeir muni takast þetta á hendur fyrir ekki neitt. Nefndin hefir ekki leitað til allra, sem áhuga hafa á þessu máli, en hún hefir haft tal af sumum þeim, sem líklegastir eru til að skipa milliþinganefnd, og þeir hafa tjáð sig fúsa til þess að takast starfið á hendur með þessum kjörum, þ. e. kauplaust.

Það vakti fyrir nefndinni, að á meðan ekki er farið að gera fullnaðaruppdrætti þá þyrfti ekki mikið fje til undirbúningsins, og ekki ætlaðist hún heldur til þess, að rannsökuð yrðu sjúkrahús erlendis fyrir þessa upphæð, en nefndin telur þá fyrst koma til þessa, þegar væntanleg milliþinganefnd hefir setið að störfum og komið fram með tillögur um, hvað gera skuli, og að þá beri að veita fje til þess, sem ekki yrði langt að bíða, líklega ekki lengur en til næsta þings.

Það er síður en svo, að fjárveitinganefnd vilji draga málið á langinn eða spilla fyrir því; þvert á móti. Einmitt í því skyni, að málið verði sem best úr garði gert, ber hún fram þessa till. sína.

Það má vera, að einhverjir óski að gera brtt. við till., og er þá hægt að gera það við síðari umr.