13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Magnús Kristjánsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 173. Jeg þykist hafa fært gild rök fyrir því við 1. umr., að 4 kr. gjaldið, sem að mestu leyti kemur niður á einum atvinnuvegi, er ofhátt. Þess vegna hefi jeg gert þá brtt., að þetta fastagjald verði lækkað um helming, niður í 2 kr. Þetta fastagjald, segi jeg, því að í frv. er rúm heimild að leggja talsvert á vöruna auk þessa, ?: selja olíuna fyrir það verð, er liðlega svarar innkaupsverði og öllum kostnaði. Annars skal jeg ekki endurtaka rök þau, er jeg færði við 1. umr.; þau standa öll óhrakin.

Háttv. frsm. (S. E.) taldi þennan skatt ekki tilfinnanlegan, þar eð hann myndi reynast samsvara venjulegum kaupmannahagnaði. Þetta getur rjett verið, ef vissa fæst fyrir því, að landsstjórnin gæti selt olíuna ódýrara en menn ættu kost á, væri verslun frjáls. En þar sem engin vissa er fyrir þessu, er bein þörf á að fara gætilega af stað. Vjer þurfum reynslu í þessum efnum. Það er engin ástæða til að ákveða nokkurt fast gjald á olíuna, og síst svo hátt, þar sem heimilt er að leggja svo ríflega á hana, eins og þegar er tekið fram.

Jeg vænti, að háttv. deild hafi athugað frv. svo rækilega, að hún geti aðhylst brtt. mína.