01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í C-deild Alþingistíðinda. (3619)

173. mál, skólahald næsta vetur

3619Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að þessi till. er fram komin með ráði ráðuneytisins, eða svo að segja með samkomulagi við það. Það var talað við okkur um málið, og jeg held, að allir þáverandi ráðherrar hafi verið á þeirri skoðun, að það væri heppilegt og rjett, að stjórnin fengi einhverja heimild eða bendingu í þessa átt. Samt skal það tekið fram, að ráðuneytið í heild, hefir ekki enn tekið afstöðu til þessarar till., eða afráðið neitt um það, hvort og að hve miklu leyti skólum skuli haldið uppi, svo að það, sem jeg segi, segi jeg fyrir eigin reikning.

Fyrst skal jeg leyfa mjer að láta í ljós, að sparnaðarástæðan er fyrir mjer ljettust á metunum. Að vísu sparast talsvert fje ef kensla legst niður, en jeg tel ekki þann sparnað svo mikils virði, að hans vegna út af fyrir sig sje forsvaranlegt að láta kenslu falla niður. Eldiviðarskorturinn er miklu veigameiri ástæða. Hjer eru altof litlar birgðir til af kolum til að fullnægja öllum þörfum, en þó meiri birgðir en oft undanfarið, og þótt skólarnir brenni miklu af kolum, er það þó ekki svo gífurlegt, að miklu muni á birgðunum, þegar á alt er litið. Jeg hefi ekki athugað, hve mörg „tons“ þeir þurfa, en það er ekkert afskaplegt, nema þá þar, sem er miðstöðvarhitun, og það er sjálfgefið, að engum skóla verður leyft að nota miðstöðvarhitun, nema talsvert bætist við af kolum annarsstaðar að. Náttúrlega er ekki hægt að segja á þessum tímum, að trygt sje nóg eldsneyti til fullkomins skólahalds. En jeg verð að álíta forsvaranlegt nú, þótt skólahald sje eigi jafnfullkomið og endrarnær.

Þetta tvent, sparnaðurinn og eldsneytisskorturinn, er hvorttveggja ástæður, en það eru ekki svo miklar ástæður, að jeg leggi fjarskalega áherslu á þær.

Sú ástæðan, að ekki kunni að vera nægur útlendur matur til í landinu, og sjerstaklega í Reykjavík, hygg jeg að sje fremur ljettvæg. Það munar ekki mikið um það fyrir Reykjavík, hvort utanbæjarnemendur landsskólanna dvelja hjer í vetur eða ekki. Auk þess engin ástæða til að óttast beint matarskort í vetur, þótt auðvitað geti þurft að spara. Það er hætt við því, að fyrir geti komið, að skortur verði á feitmeti, sjerstaklega í kaupstöðum, en það er varla af atriði í þessu máli. Framsögumaður (M.P.) virtist annars ekki leggja mikið upp úr þessari ástæðu, og skal jeg því ekki orðlengja um þetta atriði.

Jeg fyrir mitt leyti hefi álitið það veigamestu ástæðuna fyrir þessari till., að afarhætt væri við því, að það yrði erfitt mjög, eða nær ókleift, fyrir efnalitla aðstandendur eða fátæka utanbæjarpilta, að kljúfa kostnaðinn við nám í kaupstað, sjerstaklega í Reykjavík.

Í vor komu til mín allmargir nemendur mentaskólans og fóru fram á, að skólatíminn væri styttur, af því að svo margir fátækir piltar, sem yrðu að sjá fyrir sjer sjálfir að öllu leyti væru orðnir uppiskroppa, búnir að eyða öllu sínu fje og gætu ekkí haldið áfram. Skólatími mentaskólans var svo dálítið styttur með tilliti til þess. Þessi ástæða, kostnaðurinn fyrir aðstandendur eða piltana sjálfa, var þyngst á metunum hjá mjer. En þeir, sem maður skyldi halda að helst fyndu til þessa, eru sagðir að vera mjög áfram um það, að skólar haldi áfram. Er sagt, að piltar sæki margir um mentaskólann og vilji ákaft, að hann haldi áfram. Má vera, eins og hv. frsm. (M.P.) segir, að utanbæjarpiltum verði sumum kostnaðarsamur hiti í vetur, en efamál er, hvort rjett sje að taka fram fyrir hendurnar á piltum, sem margir eru orðnir þroskaðir, eða aðstandendum þeirra, er þeir vilja þetta sjálfir. Jeg hefi fyrir satt, að 14 gagnfræðingar frá Akureyrarskóla hafi sótt um inntöku í 4. bekk mentaskólans, og hafi þeim verið bent á, að óvíst væri, að skólinn gæti haldið áfram, og enn fremur bent á, hve alt væri afskaplega dýrt, en þeir hafi engu að síður haldið fram þeirri ósk sinni að fá að koma í skólann. Þess vegna held jeg, að ekki þurfi að segja, að verið sje að hvetja fólk til að fara í skóla, þótt skólunum sje haldið uppi í vetur.

Jeg hefi og heyrt þá ástæðu borna fram fyrir því, að ekki sje rjett að loka skólunum nú, að landið sje ekki svo aðþrengt enn, að rjett sje að grípa til þessa örþrifaráðs, að fella niður kenslu í föstum skólum. Það þyrfti að vera komin allmikil neyð til þess, að þetta væri fært, vegna þess, að enginn getur sagt, hve lengi ófriðurinn standi. Væri vissa fyrir því, að hjer væri að eins um eitt ár að ræða, er úr fjelli, þá væri nokkuð öðru máli að gegna, þótt það gæti einnig komið allhart niður á sumum. Nú sje svo statt, að árin gætu orðið fleiri, er kensla fjelli niður á, ef nú væru þeir þegar feldir niður án fullrar nauðsynjar. Þetta atriði er mjög íhugunarvert. Ef ófriðurinn heldur áfram lengur, þá getur orðið alveg óhjákvæmilegtað fella niður skólana að ári, en þá mundi menn iðra þess, ef það hefði verið gert nú þegar, án fullrar nauðsynjar.

Hv. frsm. (M.P.) talaði t. d. um, að Háskólinn gerði ráð fyrir, að hægt væri að halda uppi kenslu að einhverju leyti, með því að hita tvær stofur. Jeg hefi talað við rektor Háskólans, og telur hann engin vandkvæði á að halda uppi kenslunni í 2 stofum. Það yrði enginn ýkja kostnaður, svo að lítil vandkvæði virðast á, að Háskólanum mætti halda uppi.

Um mentaskólann er það að segja, að þar mætti líklega halda uppi fullri kenslu með því að hita upp að eins 6 stofur, sem, eins og allir vita, er miklu minna en áður. Jeg held, að mentaskólinn eigi eitthvað talsvert af kolum, svo að eigi þyrfti að bæta miklu við hann.

Um aðra skóla skal jeg ekkert segja, en skil svo hv. fjárveitinganefnd og hv. deild, að eigi myndi álítast óforsvaranlegt af stjórninni, þótt hún rjeðist í að reyna að halda skólunum uppi, þrátt fyrir örðugleikana, svo lengi sem hægt þætti, með því móti, að þeir þrengdu að sjer, spöruðu á allan hátt, og ef til vill störfuðu um skemri tíma. Enda hefir hv. frsm. (M.P.) tekið það fram, að till. þessa bæri að eins að skoða sem heimild til stjórnarinnar.

Hitt skal jeg taka fram, að vel getur til þess komið, að stjórnin verði að láta skólana hætta, t. a. m. á miðjum vetri. Sumir myndu þá ef til vill vilja segja, að þá væri ver farið en heima setið. Jeg held, að það sje ekki rjett, því að á þessum tímum er ekki hægt að segja neitt fyrir með vissu.

Ef till. verður samþ., sem jeg þykist vita og tel rjett, mun stjórnin að sjálfsögðu flýta sjer að auglýsa, hvort skólar verði látnir starfa í vetur, og ef það þykir fært, þá með hverjum hætti. Fregn um slíka ákvörðun mun berast fljótt um landið.