01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í C-deild Alþingistíðinda. (3627)

173. mál, skólahald næsta vetur

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að segja annað en það, að ef sumir skólarnir verða látnir starfa, þá kann jeg því illa, að æðstu skólarnir, Háskólinn og lærði skólinn, verði látnir liggja niðri. Ef loka verður landsskólunum, þá hefi jeg gengið út frá, að öllum öðrum skólum yrði lokað um leið. Jeg tel það ekki sæmilegt, að búnaðarskólar og aðrir óæðri skólar sjeu betur settir en lærðu skólarnir, enda er nemendum þeirra skóla ekki eins mikill bagi að því að missa úr námsár eins og hinum, sem nám verða að stunda um langt áraskeið. En auðvitað verða það ráðherrarnir, sem stjórna.

Annars get jeg sparað mjer langar umræður um þetta mál. Jeg hafði hugsað fyrst, að stjórnin mundi verða fegin að fá þessa heimild. En nú finst mjer, að hún leggi litla áherslu á það. Jeg vil því leyfa mjer að leggja fyrir hæstv. stjórn þá spurningu, hvort henni sje heimildin kær eða ekki, og ef hún vill þiggja hana, þá með hverjum hætti hún hygst að nota hana, eins og útlitið er nú. Þá gæti verið útrætt um þetta mál, og stjórnin ráðið því sjálf, hvort hún fær heimildina eða ekki.