01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í C-deild Alþingistíðinda. (3631)

173. mál, skólahald næsta vetur

Matthías Ólafsson:

Ef býst við, að nefndirnar, sem fjölluðu um þetta mál, hafi gert ráð fyrir, að þetta yfirstandandi ár væri síðasta og örðugasta ár ófriðarins, Ef nefndirnar hefðu gert ráð fyrir, að fleiri ár væru eftir ófriðarins en eitt, þá hygg jeg, að þær hefðu hugsað sig tvisvar um áður en þær komu með þessa till. Hefðu þær búist við, að ókleift yrði að halda skólunum uppi 1918–19, þá hefðu þær fráleitt lagt til, að þeim væri frestað nú. Þvert á móti hefðu þær lagt til, að nú væri klifinn þrítugur hamarinn til að halda skólunum uppi. Það má að vísu segja, að ekki spilli, að stjórnin fái þessa. heimild. Verður maður þá að vænta þess, að hún fari svo vel með hana, að landinu verði enginn skaði að.

Jeg get því að eins fylgt till. nefndanna, að eitt verði látið yfir alla skóla ganga.

Jeg get ekki sjeð, að einum skóla sje frekari nauðsyn að halda áfram en öðrum. Jeg sje ekki, að það sje minni nauðsyn að halda uppi Sjómannaskólanum en Háskólanum og Mentaskólanum. Sama má segja um bændaskólana og Kennaraskólann.

Vel get jeg felt mig við brtt. á þgskj. 724. Það væri hið mesta ranglæti að koma í veg fyrir, að menn, sem hafa unnið að því að búa sig undir skólahald í vetur, geti haldið uppi skólum sínum með sama styrk og þeir hafa áður fengið.

Það mundi hafa mjög slæm áhrif á þjóðlíf vort, ef skólar væru nú lagðir niður í 2–3 ár, án þess að brýn nauðsyn lægi til. Fyrir mjer er það aðalatriðið, að ekki verði gripið til þess óyndisúrræðis að fresta skólum fyr en í fulla hnefana.

Jeg vonast eftir að fá að heyra álit stjórnarinnar á því, hvort hún hugsar sjer að láta eitt ganga yfir alla skóla. Undir svari hennar við því er mitt atkvæði komið.