01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í C-deild Alþingistíðinda. (3633)

173. mál, skólahald næsta vetur

Fjármálaráðherra (S.E.):

Jeg vildi á þessu stigi málsins að eins skjóta fram örlítilli athugasemd.

Aðalatriðið í þessu máli er ekki kostnaðaratriðið að því er landssjóð snertir. Aðalatriðið er vitanlega kolaspursmálið. Hve mikil kol eru til í landinu? Og hve mikill afgangur verður af þeim frá því allra nauðsynlegasta? En aftur á móti kemur kostnaðarspursmálið mjög alvarlega fram, þegar litið er til þeirra, sem námið stunda.

Jeg býst við, að það verði svo hjer í vetur, að flestar fjölskyldur muni búa að mestu í einu herbergi. Ekki virðist mjer, að álitlegt muni nemendum að stunda nám innan um slík þrengsli. En hvernig eiga þeir að greiða 50 krónur fyrir hvert skippund af kolum?

Er verjandi, undir slíkum kringumstæðum, að draga menn inn í kuldann og dýrtíðina til þess að stunda hjer nám?

Vitaskuld er það, að ef verð á kolum verður lækkað, þá er nokkuð öðru máli að gegna. Annars mun jeg að þessu sinni ekki fara ítarlega inn á málið.