01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í C-deild Alþingistíðinda. (3634)

173. mál, skólahald næsta vetur

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg ætla lítið að svara ræðum einstakra þm.; þær gengu mest út á einstaka varnagla, er þeir vildu slá, en fólust þó allir í þeim eina stóra, sem jeg sló fyrir hönd nefndarinnar.

Jeg skal leyfa mjer að lýsa yfir því, að skilningur hæstv. forsætisráðherra á orðum mínum um till. var alveg rjettur. Svo vildi jeg sjerstaklega svara hv. 2. þm. S.-M. (B.St.), af því að hann kom með þá fyrirspurn til nefndarinnar, hvort hún hefði gert sjer ljóst, hve mikið fje mundi sparast. — Þar til er þá fyrst því að svara, að nefndin hefir ekki gert áætlun yfir, hve mikið mundi sparast í krónum. Enda hefi jeg tekið það fram áður, að þessi till. er ekki komin fram af sparnaðarástæðum sjerstaklega, því að það var ekki einu sinni aðalástæðan. Annars get jeg gefið hv. þm. (B.St.) þær upplýsingar, að sagt er, að landsskólarnir myndu nota minst 250 tonn í vetur. Svo að ef vandræði yrðu með aðflutninga vegna kolaskorts, þá myndu sparast kol að minsta kosti til einnar Ameríkuferðar, ef skólar yrðu lagðir niður.

Viðvíkjandi orðum hæstv. atvinnumálaráðherra um bændaskólana, þá dettur mjer ekki í hug að vefengja það, að þeir sjeu þegar búnir að birgja sig upp fyrir veturinn. En eins og jeg tók fram áðan þá telur nefndin, að rjettast sje, að allir skólar fylgist að, sem upplýst er að þurfi kol, og þá auðvitað þeir líka, enda mundi það minstur skaði fyrir nemendur, þótt þeir tefðust einn vetur við námið.

Hæstv. fjármálaráðherra (S.E.) var mjer alveg sammála um sumar af ástæðum þeim, sem jeg tilfærði, og er jeg honum þakklátur fyrir það.

En út af því, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að vafasamt væri, hvort rjett væri að taka svo fram fyrir hendurnar á mönnum, að lofa þeim ekki að kosta sig, ef þeir sjálfir vildu, þá sje jeg ekkert á móti því. Þetta er það sama sem við nú altaf erum að gera með fjölmörgum dýrtíðarráðstöfunum, matarskömtun o. fl.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í það, sem hv. þm. hafa sagt í þessu máli. En jeg vildi mega benda hv. 1. þm. Húnv. (Þór.J.) á, viðvíkjandi brtt. hans, að mjer finst hann geti látið sjer lynda að taka hana aftur nú, eftir þær upplýsingar, er hann hefir fengið.