01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í C-deild Alþingistíðinda. (3635)

173. mál, skólahald næsta vetur

Þórarinn Jónsson:

Jeg get verið þakklátur fyrir það, sem hv. frsm. (M.P.) hefir sagt um till. mína, og eins hæstv. stjórnin. En þó þykir mjer það ekki einhlítt, þótt hins vegar sje mikið á því að byggja. Annars vildi jeg minnast á það, sem hv. þm. V.-Ísf. (M.Ó.) sagði, að atkvæði sitt væri bundið við þann skilning á till., að hún skæri alla skóla niður við sama trogið, ljeti eitt yfir þá alla ganga. Þessi skoðun þykir mjer einkennileg og óveruleg, og fer hún í beran bága við álit það á þessu máli, sem komið hefir fram hjer í deildinni. Jeg veit um tvo skóla í mínu kjördæmi, sem þannig er ástatt með, og það mundi koma sjer illa fyrir að þurfa að liggja með þær birgðir, sem skólarnir hafa keypt inn.

Forstöðumaður kvennaskólans á Blönduósi hefir t. d. sent mjer skeyti nýlega og spurt, hver niðurstaðan yrði, og að hann gæti ekki ráðstafað sínum birgðum á annan eða betri hátt en með því að halda skólann. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett ráðstöfun að meina þeim nemendum að njóta kenslu, sem eiga á annað borð kost á því með litlum kostnaðarauka. Viðvíkjandi orðum hæstv. atvinnumálaráðherra um, að skólar, sem væru úti á landi, ættu hægara með að starfa óhindrað, þá er hann eflaust því mjög vel kunnugur, og er jeg honum alveg samdóma um það. Og þar sem jeg heyri það sama frá hæstv. forsætisráðherra og frsm. (M.P.), þá get jeg tekið till. mína aftur.