13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Framsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg gekk að því sem vísu, er jeg tók að mjer framsögu málsins fyrir nefndina, að nokkur ágreiningur kynni að verða um mál þetta, enda sýnist mjer, að það muni rætast.

Háttv. meðnefndarmaður minn, 1. landsk. þm. (H. H.), tók það fram, að orðin »engum öðrum leyfilegt« . . . nema með sjerstöku leyfi landsstjórnarinnar í 2. gr. yrðu að skiljast svo, að ekki væri hægt að leyfa annað en undanþágur til einstakra manna í eitt skifti eða svo; en samkvæmt þessu væri ekki hægt að framselja einkaleyfi til einstaks fjelags. Jeg vil taka það skýrt fram, að samkvæmt mínum skilningi, og það var sami skilningur hjer um hjá háttv. 1. landsk. þm. (H. H.), þá er alls ekki heimilt samkvæmt 2. gr. frv. að veita neinu fjelagi allsherjarheimild til sölu og innflutnings á steinolíu, og það er með þessum skilningi einum, að jeg fylgi greininni. Ef jeg hefði talið, að það gæti komið til orða, að svo yrði litið á, sem heimilt væri að framselja olíuverslunina, hefði jeg tafarlaust komið með brtt., og í þessu sambandi þykir mjer rjett að taka fram það, sem jeg gleymdi í fyrstu ræðu minni, að á þessu atriði er einmitt verulegur munur frá lögum frá 1912, því að samkvæmt þeim var heimilt að fela fjelagi um vissan tíma alla steinolíuverslunina.

Hvað skattana áhrærir, þá vil jeg taka það fram, að jeg teldi það eins vel farið að sleppa öllum skatti af olíunni eins og að lækka skattinn niður í 2 kr. á fatið. Það er líka álitamál, hvort það væri ekki best að fella skattinn alveg niður, og það er að minsta kosti rjettara en að lækka hann svo, að landssjóð muni hann litlu.

Ef brtt. þær, sem hjer eru bornar fram, næðu báðar fram að ganga, þá hefði skatturinn numið í hvorn sjóð:

Árið 1911 kr. 23574,00

— 1912 — 23367,00

— 1913 — 29500,00

— 1914 — 22150,00

Það sjá allir, að þessi tollur, rúmar 20 þús. kr., er svoddan smámunir fyrir landssjóð, að það tekur því ekki að ræða þá, og það væri miklu rjettara að fella þá alfarið niður og hugsa um það eitt að selja olíuna sem ódýrast.

Sje nánar litið á, hvernig þetta hefði verið árin 1911—1914, þá er það svo:

Skatturinn

Ár Tala tunna með2kr. með4kr.

1911 23574 47148 94296

1912 23367 46734 93468

1913 29500 59000 118000

1914 22150 44300 88600

En eins og frv. lítur nú út hefði það orðið svo, að landssjóður hefði fengið:

1911 70722 kr., en varasj. 23574 kr.

1912 70101 —, 23367 —

1913 88500 —, 29500 —

1914 66450 —, 22150 —

Það sjá nú allir, að ef landssjóð á að draga nokkuð skatturinn, þá má hann ekki vera minni en hjer er ráð fyrir gert í frv., enda held jeg, að það sje ekki rjett, að nokkurn dragi þessi skattur. Ef það er rjett, sem altalað er, að hið svonefnda Íslenska Steinolíuhlutafjelag græði óhæfilega mikið, þá ætti álagning þess að hafa numið svo miklu, að þessa skatts gæti ekki mikið, og menn ættu að geta fengið steinolíu sama verði og verið hefir, eða töluvert ódýrari.

Jeg vona því, að háttv. deild fallist á það, annað tveggja að hafa 4 kr. gjaldið óbreytt, eða þá að hafa það ekkert.

Nefndin getur ekki heldur fallist á brtt. á þgskj. 211; hún vill aðhyllast í því efni ákvæði háttv. Nd.

Nefndin verður að líta svo á, að nægilegt sje, að ¼ hluti sje lagður í varasjóð, og verði sú brtt. samþykt, áskilur nefndin sjer rjett til að koma fram með brtt. um, að allur skatturinn verði feldur niður.

Jeg vil endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, svo að það komi skýrt og berlega fram, að það, að jeg greiði atkv. með því að fela landsstjórninni steinolíuverslunina, er eingöngu vegna þess, að nú er einokun á steinolíu á landi hjer, og að nærfelt allir kaupmenn landsins hafa skuldbundið sig til þess að kaupa olíu hjá steinolíufjelaginu og engum öðrum. En jeg vil taka undir ummæli háttv. þm. Ak. (M. K.) við 1. umræðu þessa máls, að svo framarlega sem kaupmenn væru ekki bundnir vissum skuldbindingum við steinolíufjelagið, þá hefði ekkert verið því til fyrirstöðu, að landssjóður, án nokkurrar einkaheimildar, hefði getað verslað með steinolíu, þannig að fjelaginu gæti ekki tekist að beita einokun sinni.

Að endingu vil jeg óska þess, fyrir nefndarinnar hönd, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd., en brtt. þær, er fram hafa komið, verði feldar.