04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í C-deild Alþingistíðinda. (3654)

75. mál, endurskoðun vegalaganna

Fyrirspyrjandi (Sigurður Sigurðsson):

Synd væri að halda langa inngangsræðu, eins og fundarmenn eru skiftir um það, hvort fundi skuli haldið áfram eða ekki. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að fyrir löngu er farið að bóla á óánægju út af ákvæðum vegalaganna um viðhald flutningabrauta o. fl. Þykjast einstök hjeruð beitt misrjetti í því að verða að halda við dýrum þjóðvegum, sem um hjeruðin liggja. Þannig eru t. d. Árnesingar og Rangæingar beittir ranglæti, að verða að halda við veginum austur yfir sýslurnar. Hvað eftir annað hafa komið fyrir þingið kröfur um að leiðrjetta þetta, og nú eru komnar kröfur frá Mýra- og Snæfellsnessýslum um hið sama. Alstaðar er óánægjan með vegalögin að aukast, og virðist því vera mál til komið að endurskoða þau. Þau frumvarp til breytinga á vegalögunum, sem borin hafa verið fram, hafa öll verið feld eða svæfð. Þingið 1915 samþykti þingsályktunartillögu þess efnis að skora á stjórnina að endurskoða vegalögin. Þessi þingsályktun var dagsett 27. ágúst 1915. Í tillögunni var sjerstaklega tekið fram þrent, sem taka skyldi tillit til við endurskoðun laganna. Í fyrsta lagi að athuga viðhald veganna og flokkun þeirra. Í öðru lagi átti stjórnin að koma fram með einhverjar tillögur um tekjustofna handa sýslufjelögunum, til að standa straum af vegaviðhaldi því, sem hvílir á þeim. Í þriðja lagi, að stjórnin tæki til rækilegrar yfirvegunar, í sambandi við landsverkfræðinginn, hvort ekki sje tímabært að breyta vegalögunum í þá átt, að betur sje vandað til veganna, svo að þeir verði endingarbetri en þeir hafa reynst hingað til, t. d. með því að undirbyggja eða „púkka“.

Vegalögin eru nú 10 ára gömul. Það er ekki hár aldur, en margt hefir samt breyst á þeim tíma, sem gerir beint tilkall til breytinga, bæði með þessi atriði, sem jeg hefi nú nefnt, og önnur. — Út af tillögunni frá þinginu 1915 vissi jeg ekki betur en að fyrv. ráðh., háttv. 2. þm. Árn. (E.A.), legði fyrir þáverandi landsverkfræðing, Jón Þorláksson, að endurskoða lögin.

Eins og kunnugt er urðu stjórnarskifti skömmu eftir nýárið í vetur. Jeg býst því ekki við, að fyrverandi ráðherra(E.A.)viti neitt, hvernig málinu reiddi af. Nú er fyrirspurn mín til landsstjórnarinnar þessi: „Hvað hefir landsstjórnin gert út af þingsályktun Alþingis frá 27. ágúst 1915, um endurskoðun á vegalögunum?“ Og jeg vildi mega bæta því við, hvort landsverkfræðingurinn hafi endurskoðað vegalögin, og ef hann hefir gert það, hvers vegna hefir þá stjórnin ekki lagt frumvarp fyrir þingið, er feli í sjer þessa endurskoðun ? — Meira ætla jeg ekki að segja að sinni.