27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í C-deild Alþingistíðinda. (3662)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Fyrirspyrjandi (Sveinn Ólafsson):

Ástæðan til, að fyrirspurn þessi er komin fram, er, eins og öllum mun vera Ijóst, að á síðasta þingi var samþ. þingsál.till. um, að stjórnin ljeti rannsaka nokkur hafnarstæði víðs vegar um land, en þó einkum á svæðinu frá Berufirði til Skinneyjarhöfða. Á Austfjörðum hefir þessu máli síðan verið fylgt með mesta áhuga. Það hefir verið tekið upp á þingmálafundum, og einstakir menn hafa með brjefum og símskeytum stöðugt verið að grenslast eftir um afdrif þess hjer í sumar. Þetta er ekki undarlegt, því að framtíðarvonir Austfirðinga eða austfirskra útvegsmanna eru að miklu leyti á því bygðar, að hægt verði að koma þar upp góðri höfn. Það má heita, að útvegurinn austfirski standi og falli með því. Á því má sjá, að þetta er ekkert smámunamál. Róðrarbátarnir eru að miklu leyti úr sögunni og vjelbátarnir komnir í þeirra stað, og með þeim kemur hafnarþörfin. Nú munu um 70 vjelbátar stunda veiðar fyrir Austurlandi. Hingað til hafa þeir ekki getað notað vetrarvertíðina, nema að mjög litlu leyti. Á sumarvertíðinni gengur fiskur vanalega á Austfjarðagrynningum, en hverfur þaðan að hausti. Þá er sótt beint út frá landi, oft að vísu langt, jafnvel 10–12 mílur, eða á ytri grynningarbrún. En það svæði, sem fiskurinn gengur á að vetrinum, nær ekki lengra en austur að Vesturhorni eða austast að Papey. Þangað er ókleift fyrir Austfirðinga að sækja, því að þessi slóð er hættuleg mjög að vetrinum, því að engin höfn er til að leita í, þegar veður skella á. Fyrir sunnan Fáskrúðsfjörð er varla um neina höfn að ræða, því að þótt góð höfn sje á Djúpavogi, þá er skerjótt og vandratað inn Berufjörð, jafnvel stórhættulegt. Menn, sem nú eru að efla útveg sinn eystra, bíða svo að segja með öndina í hálsinum eftir upplýsingum um möguleikana til að byggja góða höfn á þessum stöðvum. Vetrarvertíðina tekst ekki að nota af Austfjörðum til hlítar án öruggrar hafnar þar syðra.

Fullyrða má einnig, að áhugi Austur-Skaftfellinga á þessum hafnabótum sje eigi síður mikill; þar hefir hafnleysið frá ómunatíð aftrað úthaldi að mestu, og þar liggja þó fast að landsteinunum einhver bestu fiskimið landsins.

Tilgangurinn með fyrirspurninni var sá að fá að vita, hvað stjórnin hefir að gert, og hvers megi vænta um framkvæmdir hennar í þessu efni framvegis. Mjer hefir verið skýrt frá því, að verkfróður maður hafi boðið stjórninni aðstoð sína til þessara rannsókna með góðum kjörum, og virðist þetta þá horfa vænlega. Því fyr sem rannsóknin er hafin, því fyr verður hægt að byrja á hafnargerðinni, eða ef ekkert hafnarstæði finst nógu gott, þá verður eigi fje fórnað fyrir svikular vonir, eins og nú er gert. Þegar vissan er fengin, þá vaða menn ekki lengur reyk um framtíðarmöguleika útvegsins austfirska.