27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í C-deild Alþingistíðinda. (3669)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Fyrirspyrjandi (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal leyfa mjer að lýsa yfir því, út af orðum háttv. þm. V.-Ísf. (M.Ó.), að í fyrspurn minni liggur ekkert annað en það, sem orð hennar benda á. Það var ekki tilætlun mín að gera fyrirspurn um neitt, sem á undan er gengið þingsályktun síðasta þings, og jeg býst ekki við, að stjórnin svaraði öðru en því, sem fyrirspurnin gefur tilefni til. Jeg býst ekki heldur við frekari svörum en komin eru, og læt mjer, eftir atvikum, nægja þau, í fullu trausti þess, að stjórnin láti hið fyrsta vinda bráðan bug að rannsókn hafnarstæðis við suðausturströnd landsins, því að, eins og tekið hefir verið fram, bæði nú og í vetur, er þörfin á því knýjandi. Meðan slík hafnarbót fæst ekki verða Austfirðingar að fara á mis við bestu vertíð ársins, vetrarvertíðina við Austurhorn.