13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Hannes Hafstein:

Eins og jeg tók fram áðan þá er að eins ein ástæða til þess, að jeg get greitt þessu frv. atkvæði mitt, og sú ástæða er, að hjer er um stutta bráðabirgðaráðstöfun að ræða, til þess að afla landssjóði tekna í bili.

En frv. þetta brestur alt til þess, að það geti að nokkru gagni orðið til langframa.

Þegar þetta mál er rætt, þá er eins og háttv. þm. gæti þess ekki, að það kostar afarmikið fje að reka olíuverslun, og því var það, að milliþinganefnd sú, er athugaði þetta mál vel og grandgæfilega, sá ekki annað ráð fyrir hendi en að menn væru neyddir til að láta fjelagi í hendur verslunina. Til þess að reka hjer olíuverslun, svo að í lagi sje, þarf að byggja hjer »tanks«, olíugryfjur, en það kostar stórfje; svo þarf að fá bygð sjerstök »olíutank«-skip til flutninga fyrir okkur. Þegar milliþinganefndin vann að þessu máli, þá rannsakaði hún þetta atriði, og þá var það svo, að öll olíuskip með »tanks« eða olíugeymum voru miklu stærri en svo, að við mættum hafa þeirra not; þau voru ætluð til stærri flutninga. Vjer þyrftum því að fá smíðað nýtt olíuskip handa okkur. Og svo þarf járntunnur undir olíuna.

Til þessa þarf feiknamikið fje; útbúnaðurinn er svo dýr, að jeg efast um, að hagnaðurinn af versluninni nægði til vaxtagreiðslu og slits. Jeg get því alls ekki fylgt þeim að máli, sem vilja láta lækka gjaldið; ef það væri gert, þá yrði þetta háskalegt kák.

Annars fer það alveg eftir því, hvernig atkv. falla um brtt., hvort jeg get fylgt frv. eða ekki, og ef gjaldið verður lækkað, er jeg staðráðinn í að greiða atkv. gegn frv.