13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í C-deild Alþingistíðinda. (3672)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Fyrirspyrjandi (Stefán Stefánsson):

Jeg vona, að hæstv. stjórn taki því vel, þótt slík fyrirspurn, sem hjer er flutt, komi fram, og þyki hún ekki óeðlileg. Jafnvel þótt ekki væri fyrir hendi neitt sjerstakt tilefni, þá væri það ofureðlilegt, að mönnum þyki það rjett að grenslast eftir um það, sem hjer er spurt um. En það, sem aðallega veldur því, að fyrirspurnin er flutt, er það, hve flutningsgjald á steinolíu til Siglufjarðar með Botníu í síðustu ferð hennar var óvenju hátt. Út af þessu hafa kaupmenn og útgerðarmenn á Siglufirðr sent okkur þingmönnum sínum símskeyti það, sem nú er kunnugt orðið, þar sem þeir lýsa óánægju sjerstaklega yfir 20 kr. flutningsgjaldi á hvert olíufat, er þeir fengu með Botníu síðast, og telja þetta „óhæfilega ráðstöfun“ á flutningsgjaldinu, að hækka það um 300%, eða úr 5 kr. upp í 20 kr. á fat, með sömu ferð og flutningsgjald á matvöru til Húsavíkur lækkar um 33%, eða úr 45 kr. ofan í 30 kr. á. smálest, frá næstu ferð á undan.

Á þessu krefjast þeir leiðrjettingar, krefjast þess, að þeir sjeu ekki beittir misrjetti.

Þetta virðist oss svo sjálfsögð krafa, að ekki verði fram hjá henni gengið, og það er ekki líklegt, að slíkt flutningsgjald haft verið með öllu sjálfsagt eða óhjákvæmilegt. En svo er það samræmið á flutningsgjaldinu til Siglfirðinga og Húsvíkinga. Á því er slíkur feiknamunur, að ekki er að furða sig á, þó að eftir því sje tekið og mönnum gremjist það, hve Siglfirðingar eru hart leiknir.

Þetta okurgjald þola útgerðarmenn líka því ver, þar sem skaðinn er nú svo geisimikill á allri skipa- og bátaútgerð, að við liggur eyðileggingu á þeim atvinnuvegi.

Annars er þessi Botníu-hringferð svo einstök hvað kostnaðinn snertir, eftir þessu að dæma, að maður leiðist til að álita, að ef það hefir ekki verið mögulegt að haga ferð hennar haganlegar, og flutningskostnaðurinn því fyrirsjáanlegur, þá hefði alls ekki átt að senda hana í þessa ferð, þar sem ganga mátti að því sem vísu, að útvegurinn þyldi ekki slík ókjör, ofan á aðra afarkosti, sem hann varð að þola.

Og þegar litið er til þess, hvað er og hefir verið vilji þingsins um flutning á vörum landsins, þá er hann mjög ljós. Á síðasta þingi er stjórninni með lögum „heimilað að veita þeim, sem búa utan Reykjavíkur, sanngjarna ívilnun eða uppbót á kostnaði við að senda vöruna milli hafna eða staða umhverfis landið“. Og nú fyrir þrem dögum var feld tillaga um, að hálfur flutningskostnaður legðist á vörur til ýmsra hafna kringum land, en samþykt, að öllum flutningskostnaði yrði jafnað niður á alla vöruna.

Jeg vænti því, að hæstv. stjórn skýri frá, af hverju þetta háa flutningsgjald stafar, og verði fús til að leiðrjetta það, svo að hlutaðeigendur verði ánægðir.