13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í C-deild Alþingistíðinda. (3673)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Jeg verð að byrja mál mitt á stuttri athugasemd viðvíkjandi síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda (St.St.), um vilja þingsins um vöruflutning. Fyrst kannast jeg ekki við, að síðasta þing hafi sett nokkur föst ákvæði um flutningsgjald á vörum. Í annan stað var samþyktin um flutningsgjald, sem gerð hefir verið hjer í deildinni nýlega, gerð eftir að þeir atburðir gerðust, sem hrintu hv. fyrirspyrjendum af stað. Og það gat alls ekki verið tilætlun, að þetta hefði áhrif á liðna tímann. Enn fremur vil jeg taka það fram, að afskifti þingsins af flutningsgjaldi hafa að eins náð til landssjóðsvaranna. Það er því allsendis meiningarlaust að vitna til þeirra, þegar um flutningsgjald á vörum kaupmanna er að ræða.

Mjer er ljúft að játa, að það er ekki eingöngu eðlilegt, að fyrirspurn þessi er fram komin, heldur er hún og stjórninni kærkomin.

Skal jeg svo snúa mjer að því að lýsa, frá sjónarmiði stjórnarinnar, reglum þeim, sem farið hefir verið eftir, um flutningsgjald á vörum út um land.

Að svo mæltu vil jeg svara fyrirspurn þeirri, sem hjer er nú fram komin, og mun jeg reyna að gera það svo ítarlega, en þó jafnframt í svo stuttu máli, sem atvik liggja til.

Eins og kunnugt er drógst afhending skipsins „Sterling“, sem keypt var síðari hluta vetrar frá Svíþjóð til strandferða, svo mjög, að skipið gat ekki farið fyrstu strandferðina frá Reykjavík fyr en um miðjan síðastliðinn ágústmánuð. Varð landsstjórnin því í maímánuði í vor að leigja skipið „Botníu“ til þess að annast ferðir með ströndum fram, þangað til Sterling kæmi. Það var þá orðin mesta þörf á að fá strandferðir, því að lítið hafði verið um vöruflutninga til landsins það sem af var árinu, vegna siglingateppunnar, og því víðast orðinn hörgull á vörum, en hins vegar hafði komið talsvert af nauðsynjavörum til Reykjavíkur í apríl og maímán., sem þurftu að fara út um landið. Botnía var að vísu ekki hentugt strandferðaskip og var dýrt skip í úthaldi, þar sem hún er mjög kolafrek og kolin dýr, enda þá lítið um þau hjer. Til þess, að landssjóður biði ekki altof gífurlegan halla af ferðunum, varð að setja upp bæði fargjalds- og farmgjaldstaxtann frá því, sem hann hafði áður verið. Á mjölvörum, kaffi, sykri og öðrum nauðsynjavörum var taxtinn með Botníu hækkaður frá taxta Eimskipafjelags Íslands upp í 45 kr. fyrir smálest, á öðrum vörum um rúm 100%, og þótti ekki fært að hækka hann meir á þeim vörum, því að hætta þótti þá á, að menn teldu frágangssök að flytja þær vörur með skipinu. Að því er steinolíuflutning snerti með Botníu þá, var það landsstjórnin ein, sem hafði olíu og seldi hana þá undir verði fyrir sama verð um land alt, og þótti því ekki rjett að leggja þá meiri flutningskostnað á hana en 5 kr. á tunnu. Taxtinn gilti jafnt fyrir allar vörur, sem sendar voru með skipinu, bæði landsjóðsvörur og vörur frá einstökum mönnum. En af því að landssjóður einn hafði þá nokkuð verulegt af vörum fyrirliggjandi hjer, voru það aðallega vörur frá honum, sem fluttar voru með tveim fyrstu ferðum skipsins. Strandferðaskipið Sterling kom hingað, eins og kunnugt er, í byrjun ágústmánaðar, og tók Eimskipafjelag Íslands þá þegar við afgreiðslu þess, eins og Alþingi hafði gert ráð fyrir. Eftir tillögum stjórnar Eimskipafjelagsins var þá sett flutningsskrá fyrir skipið, þannig, að farmgjaldstaxtinn var settur helmingi eða 100% hærri en flutningsgjöld Eimskipafjelagsins áður. Eftir því er flutningsgjaldið með skipinu nú fyrir mjölvörur 30 kr. af smálest, 40 kr. fyrir smál. af kaffi, 8 kr. fyrir steinolíutunnuna o. s. frv. Að vísu má búast við töluverðum halla af útgerðinni með þessum töxtum, enda er gert ráð fyrir tillagi úr landssjóði til strandferða í fjárlögunum, en vænta má, að hallinn verði ekki eins mikill að tiltölu og hann reyndist í þeim þrem strandferðum, sem Botnía var látin fara og síðar mun vikið að. Að sjálfsögðu gildir þessi farmgjaldstaxti Sterlings jafnt fyrir landssjóðsvörur sem vörur frá öðrum. Af því, sem nú hefir sagt verið, sjest það, að sömu reglum hefir verið fylgt um ákvörðun flutningsgjalds alment á landssjóðsvörum og vörum annara með Botníu og Sterling, en í þriðju ferð Botníu var gerð undantekning frá þessari reglu, af alveg sjerstökum ástæðum, sem nú skal nánar skýrt frá.

Þegar Botnía kom úr annari ferðinni kringum land hingað, var ekki afráðið, hvort hún yrði látin fara þriðju ferðina. Sterling var þá nýkomin frá útlöndum, og þótti óvíst, hvort hún myndi ekki geta fullnægt flutningsþörf þeirri, er þá var hjer á vörum úti um land. Að vísu voru um 200 smálestir í skipinu frá Kaupmannahöfn til ýmsra hafna úti um land; en það rúm, sem eftir var, myndi þó hafa nægt til þess að koma bæði þeim landssjóðsvörum og öðrum vörum, sem nauðsynlega þyrftu að komast með þeirri ferð, sjerstaklega til hafna, sem ekki hafði verið komið á í tveim undanfarandi ferðum Botníu. En þá kom nýtt atvik fyrir, sem olli því, að ákveðið var að láta Botníu fara þriðju ferðina. Um sama leyti sem Botnía kom hingað úr annari strandferðinni kom hingað frá Ameríku skip steinolíufjelagsins hjer, „Fredericia“, með 8.000 tunnur af steinolíu. Strax er það skip var komið hingað, drifu að til landsstjórnar og steinolíufjelagsins úr öllum áttum beiðnir um, að sjeð væri sem allra fyrst um flutning á þeirri steinolíu út um land, sjerstaklega af svæðinu frá suðurtakmörkum Suður-Múlasýslu að vesturtakmörkum Eyjafjarðarsýslu, til fisk- og síldveiða. Steinolíufjelagið sá sjer ekki fært að láta skip sitt fara lengra en til Reykjavíkur með neitt af steinolíunni, enda var það eðlilegt, er um svo stórt og dýrt skip var að ræða. Ekki gat verið að tala um, að Sterling gæti tekið nema eitthvað á annað hundrað tunnur af olíu, og það á þilfar, og var það ekki meira en nauðsynlega þurfti að flytja til þeirra hafna, þar sem tvær fyrstu ferðir Botníu komu ekki að notum, þó því að eins, að slept væri að koma með Sterling nauðsynlegum flutningi til Tjörnesnámunnar, en til Ísafjarðar fjell skipsferð hjeðan, til að sækja flutning úr Goðafossstrandinu, um það leyti, sem steinolíuskipið kom hingað, og með þeirri ferð kom steinolíufjelagið olíu þeirri þangað, sem með þurfti í bráðina. En þá voru Austfirðir, Þingeyjarsýsla og Eyjafjarðarsýsla eftir. Gaf landsstjórnin þá steinolíufjelaginu kost á því að láta Botníu fara þriðju strandferðina hjeðan austur um land til Eyjafjarðar með steinolíu. Var áætlað, að skipið mundi geta flutt 3.000 tunnur, og flutningsgjaldið sett 20 kr. fyrir tunnuna, og var áætlað, að landssjóður myndi með því flutningsgjaldi sleppa skaðlítið við ferðina, ef alt gengi upp á hið besta og fullfermi yrði af steinolíu, eins og þá mátti búast við. Þessi áætlun reyndist og nærri sanni, því að niðurstaðan varð sú, að ferðin kostaði um 58 þús. kr., enda vildu engar tafir til af veðri á ferðinni. Landstjórninni þótti sem sje ekki ástæða til að kosta miklu til úr landssjóði til þessa steinolíuflutnings, eftir því sem á stóð.

Næsta steinolíufarm á undan þessum, þann, sem kom með Bisp í vor og var afardýr landssjóði, vegna tafa skipsins í Ameríku út af siglingateppunni, hafði landsstjórnin sem sje selt mikið undir verði, vegna útgerðarinnar, og þótti ekki fært að halda áfram með það og tapa svo miklu á flutningi þessa steinolíufarms, er um var að ræða, úti um land. Þegar framkvæmdarstjóri steinolíufjelagsins skýrði kaupendum sínum á Austur- og Norðurlandi frá farmgjaldinu með Botníu, mótmæltu þeir því, en þóttust þó óhjákvæmilega þurfa að fá olíuna tafarlaust. Kváðust nokkrir útgerðarmenn við Eyjafjörð þá senda mótorbáta hingað suður eftir olíunni og sækja hana þannig smátt og smátt. Einn af þessum bátum var mótorbátur, sem búið var að ráða til strandferða frá Norðurlandi til Austurlands, og gat ekki komið til mála að gefa bátinn eftir til þessa. En um hina aðra báta, sem stóð til að væru látnir sækja olíuna, kom það í fyrsta lagi til álita, hvort þeir myndu geta sótt svo mikið af henni, að allir, sem þyrftu olíu þar nyrðra, gætu fengið með því móti í tíma það, sem nauðsynlegt var. Í öðru lagi hefði gengið allmikið af olíu í slíkar flutningaferðir, og þá stóð svo á, að alveg var í óvissu, hve nær næst kæmi steinolía hingað, því að fyrir skip landsstjórnarinnar, Villemoes, sem þá lá í New-York, hafði þá ekki fengist leyfi til olíutöku, og alveg í óvissu, eftir ástandinu í Ameríku þá, hve nær útflutningsleyfið fengist. Vakti þá fyrir landsstjórninni að eyða ekki að óþörfu því, sem þá var af olíu í landinu, en það hefði orðið ef farið hefði verið að kjótla olíunni norður með mótorbátum, þótt þá hefði kann ske orðið eitthvað ódýrara flutningsgjaldið á tunnu fyrir kaupendur með því móti. Í þriðja lagi reið það baggamuninn, að Austfirðingar og Þingeyingar höfðu engin skiparáð til að ná að sjer olíunni, og voru þeir, einkum Austfirðingar, mjög óþolinmóðir, og sögðust tapa mörgum þúsundum króna á dag í fiskveiðum, ef ekki væri bætt tafarlaust úr olíuvöntuninni þar. Að þessu athuguðu rjeð landsstjórnin það af að láta alla þá steinolíu, sem átti að ganga til svæðisins frá suðurtakmörkum Suður-Múlasýslu til vesturtakmarka Eyjafjarðarsýslu, fara með Botníu. Þegar til kom, urðu það ekki nema 1966 tunnur, sem fóru með Botníu til þessa svæðis, sem sje:

Til Eskifjarðar 356 tunnur.

— Seyðisfjarðar 423 —

— Húsavíkur 117 —

— Siglufjarðar 264 —

— Akureyrar 806 —

Með því nú að steinolíufjelagið var deigt við að senda mönnum olíuna með þessu flutningsgjaldi, sem mótmælt höfðu því, hve hátt það væri, var fjelaginu lofað því, að landsstjórnin skyldi taka við því af olíunni, sem kaupendur kynnu að amast við að taka á móti, sem ekki reyndist, enda vakti það sjerstaklega fyrir landsstjórninni að koma olíunni svo fljótt til allra, að fiskveiði og síldveiði þyrfti ekki að stöðvast, og láta jafnt ganga yfir alla með flutningsgjaldið. Í sambandi við þetta skal á það minst, að fundið hefir verið að því, að sumir hafi fengið steinolíu með Sterling, sem fór hjeðan um sama leyti, fyrir 8 kr. flutningsgjald fyrir tunnu, og að þar kenni misrjettis. Þetta er þó ekki svo. Með Sterling fóru að eins 149 steinolíutunnur á þilfari; meira gat skipið ekki tekið; þær fóru allar á smáhafnir úti um land, sem hvorki höfðu fengið steinolíu með Bisp eða Botníu í tveim fyrstu ferðunum, og því ekki notið góðs af þeirri lækkun, sem gerð var á hinu virkilega verði þeirrar olíu. Þessar 149 tunnur skiftust niður á 12 hafnir, og var þó sumt af olíunni til afskektra landsvita. Þegar svona stóð á, þótti engin ástæða til að fara að hækka flutningsgjaldið fyrir þessar tunnur upp úr þeim 8 kr. taxta, sem settur hafði verið fyrir Sterling.

Eins og getið var urðu það ekki nema tæpar 2.000 tunnur af steinolíu, sem fóru með Botníu, og var því töluvert rúm eftir í skipinu. Var þá einstökum mönnum gefinn kostur á að senda vörur með því fyrir fyrgreindan taxta, sem gilti um tvær fyrstu strandferðir skipsins. Til viðkomustaðanna komu þá til flutnings samtals 112½ tonn, 2.608 teningsfet, og 255 tómar tunnur frá einstökum mönnum. Var þá enn eftir nokkurt rúm í skipinu, og þótti þá rjett að láta það ekki ónotað, og voru þá settar landssjóðsvörur í það, sem að vísu lá ekki á í þessari ferð, svo sem hér greinir:

Til Eskifjarðar 11.475 kg. mjölvörur 1.200 kg. kaffi og sykur

Til Seyðisfjarðar 300 kg. kaffi og sykur

Til Akureyrar 12.755 kg. 7.655 kg. kaffi og sykur

Til Siglufjarðar 300 kg. kaffi og sykur

Til Húsavíkur 1.150 kg. ………………………

Samtals 25.380 kg. mjölvörur 9.395 kg. kaffi og sykur

Auk þessa voru send með Botníu til Tjörnessnámunnar 7 tonn 350 kg. af ýmsum vörum og 2.234 teningsfet af trjáviði, seni ekki var látið fara með Sterling, til þess að rýma fyrir steinolíunni til smáhafnanna, og gelið var um áður.

Eins og áður var getið voru landssjóðsvörurnar látnar í Botníu, til þess að láta rúm þar ekki ónotað. en nú hefir verið fundið að því, að landssjóðsvörur þessar voru fluttar fyrir sama taxta og landssjóðsvörur þær, sem fóru samtímis með Sterling, sem sje 30 kr. fyrir smálest af kaffi og sykri. En slíkt er fjarstæða, því að það hefði valdið mesta ruglingi og ósanngirni að fara að senda landssjóðsvörurnar samtímis til sömu hjeraðanna með misjöfnu flutningsgjaldi, þegar enginn nauður rak til þess að senda vörurnar þá. Og eins og sendingum var hagað, og getið var um, sætti ekkert hjerað betri kostum þar en annað, eins og þó jafnvel hefir verið haldið fram.

Landsstjórnin verður samkvæmt þessu að halda fast við það, að í ráðstöfunum þessum öllum hafi verið farið svo að, sem ástæður heimtuðu, þegar ráðstafanirnar voru gerðar, og að henni verði ekki með rjettu legið neitt á hálsi fyrir þær, því að þótt svo hafi reynst, að útlit sje fyrir, að nú rætist betur úr með steinolíu en þá horfðist á, og þótt gæftir hafi orðið stirðari en búist hefir verið við, og því má ske minni þörf á olíu en ella, þá var það ekki fyrir- sjáanlegt þá.

Loks skal drepið á eitt atriði, sem vikið hefir verið að áður af landsstjórnarinnar hálfu, hvort ástæða kynni að vera til að bæta eitthvað upp flutningsgjaldið fyrir steinolíuna með Botníu eða slá einhverju af því, og skal þess þá getið, að enginn einstakar maður eða fjélag myndi finna ástæðu til þess, ef eins væri ástatt fyrir honum og landsstjórninni í þessu máli. Það eina, sem gæti mælt með því, er það, að á þessari þriðju ferð Botníu varð dálítið minni halli en á hinum tveim ferðunum tilölulega, og það þótt tekið sje tillit til þess, að þriðja ferðin var að eins hálf hringferð. Á öllum ferðunum hefir sem sje samtals orðið rúmur 117 þús. kr. halli fyrir landssjóð, en þar af fellur á þessa þriðju ferð að eins um 8.000 króna halli, og sá halli stafar að mestu af vörunum til Tjörnesnámunnar, meðal annars við að koma þeim af sjer þar. Annars skal þess hjer getið, í sambandi við þetta mál, að landsstjórnin hefir í huga að jafna sem mest að hægt er og sem víðast á landinu að við verður komið, verð á sykri, steinolíu, kolum og salti, svo lengi sem hún hefir aðalinnflutning á þeim vörum til landsins, eins og útlit er fyrir að verði um sinn. Og jafnframt því getur þá komið til mála að lækka eða bæta upp að einhverju leyti þetta farmgjald steinolíunnar í síðustu ferð Botníu, sem svo mikið hefir verið talað um.

Jeg vona, að ekki verði á móti haft, að til þessarar skýrslu hafi verið vandað eftir föngum, og það eigi rengt, að hjer sje sagt rjett og satt frá öllum málavöxtum.

Fyrirspurnum, sem fara út yfir það, sem tekið er fram í skýrslu þessari, mun jeg tæplega við búinn að svara að sinni; með skýrslunni mun vera svarað öllu, sem í hinni prentuðu fyrirspurn er tekið fram. Hv. deild er auðvitað í sjálfsvald lagt, út í hvaða sálma hún vill fara, út fyrir hina upprunalegu fyrirspurn. En þar getur ýmislegt fyrir komið, sem ekki má vænta, að stjórnin sje viðbúin að svara fyrirvaralaust.