13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í C-deild Alþingistíðinda. (3674)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Fyrirspyrjandi (Stefán Stefánsson):

Jeg þakka hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir svar hans, og býst ekki við að bera fram fleiri fyrirspurnir en hin prentaða fyrirspurn bendir á, svo að það er óþarfi fyrir hæstv. atvinnumálaráðherra að vera að slá þar nokkurn varnagla.

En viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðherra (S.J.) gat um í upphafi ræðu sinnar, að jeg mundi ekki hafa rjettan skilning á þessu máli, þá verð jeg að segja það, að í lögum þeim, sem þingið samdi í vetur, um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum, og í þingsál.tillögu þeirri, er samþykt var fyrir skemstu hjer í deildinni, er fólgin að nokkru leyti skipun til stjórnarinnar að ívilna með flutningsgjald, eða koma jöfnuði á vöruverð á hinum ýmsu stöðum í landinu. Jeg skil ekki mælt mál ef þessi skilningur minn er ekki rjettur; og hverja aðra þýðingu getur þingsályktunartillagan haft en að herða á stjórninni, einmitt af því, að þinginu þótti hún hafa notað linlega ívilnunarheimild þá, sem henni var gefin í vetur, og ekki farið þar að vilja þingsins. Jeg álít, að það hefðu orðið að vera mjög knýjandi ástæður fyrir stjórnina, miklu sterkari en komið hafa fram enn, til þess að setja hátt og mismunandi flutningsgjald á vörur út um land. Óneitanlega komst hæstv. atvinnumálaráðherra illa út af því, er hann var að skýra frá hinu mismunandi flutningsgjaldi á steinolíunni, og þó engu síður er hann var að segja frá mismunandi flutningsgjaldi með sama skipinu; þær ástæður, sem hann færði fyrir því, rjettlættu það að litlu leyti.

Jeg skal ekki fara að gagnrýna ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra. Virtist mjer hann geta sætt sig við, að þessi mismunandi flutningskostnaður væri bættur upp. F.n af því, að mjer virtist svar hans ekki vera fullkomin skýring á flutningsgjaldsmuninum, þá leyfi jeg mjer að bera upp svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að landsstjórnin greiði 8 kr. flutningsgjaldsuppbót fyrir hvert steinolíufat með síðustu ferð Botníu, og að sjálfsögðu verði samræmi eftirleiðis komið á flutningsgjald, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.