06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í C-deild Alþingistíðinda. (3702)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil ekki áfella stjórnina fyrir framkvæmdir hennar um úthlutun á vörum landssjóðs. Enda eiga hjer margir hlut að máli, þar sem eru 3 stjórnir, sem 5 menn hafa skipað, síðan ófriðurinn hófst.

Jeg hefi ekki orðið var við það, að neinni aðalreglu um úthlutun nauðsynjavara hafi verið fylgt. Það getur verið eðlilegt, þar sem hinar ýmsu stjórnir hafa hver um sig álitið sína aðferð heppilegasta. Í fyrstu var gefin út auglýsing, er mælti svo fyrir, að sveitarstjórnir sendu pantanir sínar til stjórnarinnar, og var vörunum þá úthlutað eftir því, sem birgðirnar voru, þegar pantanirnar komu fram. Gafst það vel, er mönnum var kunnugt, hvernig þeir ættu að haga sjer. Nú var þessi regla látin falla niður, en stjórnin sendi vörur út um land, og voru þær settar undir umsjón lögreglustjóranna. Þá áleit almenningur, að þetta væri orðin föst regla, að menn þyrftu ekki að panta vörur sínar hjeðan, en gætu snúið sjer til lögreglustjóra og fengið vörur eftir þörfum.

Enn var breytt til, og engar vörur sendar út um land, heldur varð hver og einn að hafa þá útvegi, sem hann gat. Það eru þessar tíðu breytingar á fyrirkomulaginu, sem jeg vildi athuga. Aðalreglan, sem ætti að geta gilt, er að landsstjórnin auglýsti, að ekki yrði tekið við öðrum pöntunum en frá sveitarstjórnum, og skyldu þeim fylgja greinilegar skýrslur um fyrirliggjandi vörubirgðir.

Þetta er eini vegurinn til þess að lenda ekki í hálfgerðu fálmi með úthlutunina.

Vil jeg þá víkja að ræðu hv. fyrirspyrjanda (M.T.). Samanburður hans á birgð um í einstökum hjeruðum er ekki sem allra nákvæmastur. Þó að Eyjafjarðarsýsla hafi verið talin einna best birg, er skýrslan var gerð, og hún hafi þá átt 53/4 mánaða forða af kornvöru, mun sá forði að minstu leyti vera frá landsstjórninni, heldur vera að þakka dugnaði og útsjónarsemi þeirra manna, er þar búa. Jeg þori að fullyrða, að þó að þetta hjerað hafi átt heimtingu á 1/10 af korni því, sem flutt er til landsins, þá hafi það ekki notið nema 1/20–1/30 af kornforða landssjóðs. En vegna dugnaðar hjeraðsbúa hefir ekki verið brýn þörf á meiru. Er því síst ástæða til að bregða stjórninni um, að hún hafi úthlutað þessu hjeraði óhóflega miklu. Um Stranda-, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur má þó segja, að þær hafa líklega fengið einna mest af þessum vörum.

Þegar þessar sýslur fengu vörur sínar, var íshætta að mestu hjá liðin. Ef eitthvað hefir verið athugavert við þessa ráðstöfun, þá var það það, að þessar sýslur á Norðurlandi, þar sem íshættan var mest, hafi fengið þessar vörur ofseint, þótt það kæmi ekki að sök að þessu sinni.

En nú er þýðingarlaust að vera að halda langa ræðu um fortíðina. Það væri rjettara, að gefnar væru bendingar um það, sem gera ætti hjer eftir.

Jeg ætla að eins að minnast á annað atriði, sem oss liggur miklu nær; það er það, að vjer vitum, að steinolíuvandræðin hafa verið svo mikil, að fiskveiðaflotinn hefir orðið að liggja aðgerðalaus svo að mánuðum skiftir. Þetta dettur mjer ekki í hug að áfella stjórnina fyrir, því að jeg veit, að skip hafa ekki verið fyrir hendi til að ná í olíuna. (B.K.: Olíuskip fórst á leiðinni). En nú er komið olíuskip, sem hefir haft að færa eitthvað um 7.000 tunnur, og hefi jeg heyrt, að landsstjórnin muni ekki ætla sjer að hafa nein veruleg afskifti af því, hvernig þessari olíu væri skift út um landið. Það getur í sjálfu sjer verið rjett hjá landsstjórninni, hafi hún kynt sjer nákvæmlega, hvernig fjelagið hefir ætlað sjer að úthluta henni. Þetta finst mjer meiri ástæða til að tala um, heldur en það, hversu mörg pund af þessari eða hinni vörutegundinni hafi lent á hvern stað.

Mjer er kunnugt um, að þeir menn, sem hafa verið að grenslast um það hjá fjelaginu, hvort þeir gætu fengið keypta olíu, hafa fengið þau svör, að fjelagið væri búið að lofa 10–11 þús. tunnum, en hefði ekki yfir að ráða nema 7.000 tunnum. Nú væri ástæða til fyrir stjórnarráðið að vita hverjir þessir menn væru, sem ættu olíuna, því að það hlýtur að vera þýðingarmikið atriði, að það sjeu ekki einstakir menn, sem hafi keypt hana alla. Jeg vildi nú beina þeirri ósk til stjórnarráðsins að taka þetta mál til athugunar, og enn fremur vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvinnumálaráðherra, hvort ekki lægju fyrir neinar pantanir frá bæjar- eða sveitarstjórnum víðs vegar um land, og hvort stjórnarráðið gæti ekki fengið eitthvað af þeirri olíu, sem fyrst kæmi til landsins, handa þeim, sem nauðulegast eru staddir. Liggi slíkar pantanir fyrir, má gera ráð fyrir, að stjórnarráðið hafi gert eitthvað í því efni; en væri ekki svo, fyrir tómlæti manna, að þeir hefðu ekki hugsað um að senda slíkar pantanir, þá væri ástæða til að spyrjast fyrir um það, t. d. hjá sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, — jeg býst við, að ekki þurfi að gera fyrirspurn til bæjarfógetans á Ísafirði um það; hann mun hafa auga á hverjum fingri gagnvart hlutunum, því að verði ekki þessi olía, sem nú er komin, potuð sem haganlegast, gæti illa farið.

Það er brýn þörf á því, þótt jafnvel stjórnarráðið hafi ekki ætlað sjer að taka þessa olíu til fullra umráða, að sjá um, að hún komi þar niður, sem þörfin er mest.