06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í C-deild Alþingistíðinda. (3707)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Fyrirspyrjandi (Magnús Torfason):

Það er alveg rjett hjá hv. þm. G.-K. (K.D.), að við þessa umr. má ekki gera neina ályktun. Það stendur í 31. gr. En í 42. gr. segir svo — með leyfi hæstv. forseta — :

„ — — Meðan á umræðum stendur má gera tillögu, er bygð sje á ástæðum, um að taka skuli fyrir næsta mál á dagskránni, og skal þá afhenda forseta tillöguna um það skrifaða“.

Jeg fyrir mitt leyti verð að líta svo á, að rökstudd dagskrá, síðast í greininni, eigi við alt, sem á undan er komið í þessari grein, og að hjer sje algild regla, sem nái líka til fyrirspurna. Það er með öðrum orðum, að 31. gr. hlýtur að líta svo á, að dagskráin sje ekki nein ályktun; að minsta kosti er það, að ef í dagskránni sjálfri felst ekki nein ályktun, þá hlýtur að mega bera hana fram samkvæmt þessari grein, og dagskráin er orðuð svo, að í henni felst engin ályktun. Að enda fyrirspurn með rökstuddri dagskrá var gert síðast nú á laugardaginn var í hv. Nd., enda veit jeg, að góðir lagamenn hafa skilið lögin svo, að það megi gera.