31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

Fastanefndir fylltar

fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að vegna þess, að jeg er orðinn fjármálaráðherra, þá þarf að kjósa mann í 4 nefndir, sem háttv. deild hefir sett. Sumar þessar nefndir hafa stórmál með höndum, og það er nauðsyn, að þær geti starfað óslitið að málum sínum.

Jeg vil enn fremur vekja athygli á því, að þeirri reglu hefir áður verið fylgt, að þeir, er stóðu að kosning þess, er fór úr nefndinni, hafa tilnefnt mann í hans stað, og ef þeirri reglu verður fylgt hjer, sem jeg tel sjálfsagt, þá hefir Sjálfstæðisflokkurinn komið sjer saman um, hverja hann tilnefni í nefndirnar.