05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Pjetur Jónsson:

Það er gleðilegt, að þetta frv. er fram komið. Jeg hygg, að hjer sje afarmikið verkefni fyrir hendi, sem ekki veiti af, að bæði einstaklingarnir og löggjafarvaldið hjálpist að til þess að koma í framkvæmd. Jeg ætla mjer ekki að ræða mikið um þetta mál, því að það er borið fram af stjórninni og sjálfsagt rækilega undirbúið. En jeg vildi þó leyfa mjer að drepa með fáum orðum á eitt atriði, sem jeg er ekki kominn í skilning um, hvernig vakað hefir fyrir stjórninni.

Eins og hæstv. atvinnumálaráðherra tók fram er ætlunin með frv. þessu meðal annars að styðja að nokkurskonar landvinningi, ekki einungis að verjast frekari skemdum, heldur að vinna upp áður tapað land og gera það nothæft. Þetta er aðalatriði málsins, og það eru allar líkur til, að það takist að vinna upp mikið landflæmi. En þá er spurningin: Hvað fær landssjóður, sem ber ¾ hluta kostnaðarins, í aðra hönd, hvað fær hann af þessu nýja landi?

Mjer er ekki kunnugt um, hvort þær jarðir, sem hjer eiga hlut að máli, eru opinber eign, en ef þær eru einstakra manna eign, hvers vegna á þá að gefa ¾ hluta kostnaðarins þessum einstaklingum, úr því að hjer er jafnframt um gróðafyrirtæki að gera.

Jeg get ekki sjeð af frv., að til þess sje ætlast, að hið opinbera beri nokkuð upp af þessu nýja landi. Ef jarðirnar eru opinber eign, þá eignast hið opinbera auðvitað þetta nýja land og gagnið, sem af því flýtur. En ef þær eru einstakra manna eign, þá rennur ágóðinn í vasa einstaklinga. Um þetta vildi jeg leyfa mjer að óska upplýsinga, og vænti, að hæstv. stjórn og væntanleg nefnd taki þetta til íhugunar.