03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3793)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg verð að halda fast við það, er jeg sagði áðan. Í raun og veru er ekki hallað jafnvæginu milli landbúnaðar og sjávarútvegs með frv. þessu, og á jeg þar við allan fjölda þeirra manna, er þá atvinnu stunda. Það er ekkert misrjetti gagnvart öllum fjölda þeirra manna, er sjávarútveg stunda, þó að afnuminn sje verðhækkunartollurinn á ull. Fiskurinn er þegar seldur, og græða framleiðendur ekkert á því, þótt verðhækkunartollurinn á honum sje ekki afnuminn. Öðru máli er að gegna um ullina. Hún er að miklu leyti óseld og ullarverð ekki enn fastákveðið. Það væri því smáhagur fyrir bændur, yrði frv. samþykt. En ef hægt er að sýna fram á það, að ekki sje búið að taka tillit til verðhækkunartolls á afurðum sjávarútvegsins, þá vildi jeg helst, að öll þessi vitlausu verðhækkunartollslög væru feld úr gildi.

Þar sem jeg vil leggja áherslu á það, að frv. þetta verði samþykt, er það ekki einungis vegna þess smáhagnaðar, er bændur geta haft af því, heldur vakir annað fyrir mjer. Verði þetta frv. samþykt, væru verðhækkunartollslögin úr sögunni og þessi atvinnumáladraugur þar með kveðinn niður. Og því fremur er mjer ant um frv., sem jeg heyri hv. atvinnumálaráðherra skýra frá, að ný verðhækkunartollssuða sje á ferðinni. Jeg vil sem fyrst kveða niður þessi óviturlegu lög, sem öllum er illa við. Öll þjóðin er þeim andvíg og kann þinginu 1915 sannarlega engar þakkir fyrir að hafa samþykt þau.